Gagnrýna skort á samráði í borginni

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna segja samstarf eða vilja til sameiginlegrar niðurstöðu aldrei hafa verið minni en með nýverandi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins. Skipulagsbreytingar sem kynntar voru í vikunni sýni það og sanna.

Greint var frá breytingunum á mbl.is en þær eru sagðar gerðar með það að markmiði að einfalda og efla miðlæga stjórnsýslu, sameina skrifstofur og ná fram hagræðingu og bæta þjónustu við borgarbúa enn frekar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja hins vegar að fjárhagslegur ávinningur virðist lítill sem enginn og spurningum um faglegan ávinning ósvarað.

Í bókun er bent á að tillögurnar hafi ekki fengið eðlilega umfjöllun í fagráðum, borgarráði eða stjórnkerfisnefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa slíkar breytingar. „Sú nefnd hefur ekki verið boðuð til fundar frá því í desember eða fjóra mánuði, en á sama tíma hefur meirihlutinn unnið þessar tillögur án aðkomu frá kjörnum fulltrúum minnihlutans.“

Borgarfulltrúar meirihlutans svöruðu því til að lengi hafi verið kallað eftir breytingum á stjórnkerfi miðlægrar stjórnsýslu og að stjórnkerfisnefnd hafi fjallað um þau mál reglulega frá upphafi kjörtímabilsins. „Stýrihópur um endurskipulagningu framkvæmda- og eignasviðs, skipulags- og byggingasviðs og umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar var skipaður af borgarstjóra 18. ágúst 2011. Síðan þá hefur verið unnið að undirbúningi tillögunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert