Fram kemur á vefsíðunni Animal Connection að alþjóðleg dýraverndunarsamtök hafi hvatt bandaríska og evrópska ráðamenn til þess að beita sér af hörku eftir diplómatískum leiðum gegn hvalveiðum Íslendinga með það að markmiði að bundinn verði endi á þær í kjölfar frétta fyrir helgi um að hrefnuveiðar verði haldið áfram hér við land í sumar.
„Íslendingar hafa flutt úr nær tvö þúsund tonn af hvalkjöti til Japans á undanförnum árum. Íslenska hvalveiðifyrirtækið Hvalur er viljandi að byggja upp útflutningsmarkað fyrir tegundir í hættu og sem eru verndaðar af tveimur alþjóðlegum samningum sem Ísland hefur undirritað. Við köllum eftir því að Evrópusambandið og Bandaríkin grípi þegar til aðgerða til þess að stöðva þessar ólögmætu veiðar,“ er haft eftir Clare Perry hjá bresku dýraverndarsamtökunum Environmental Investigation Agency.
Vísað er í frétt Skessuhorns í síðustu viku þar sem fjallað var um að undirbúningur væri hafinn fyrir hrefnuveiðar í sumar. Segir í umfjölluninni á Animal Connection að frétt blaðsins sé tilefni þess að dýraverndarsamtökin hafi heft samband við bandaríska og evrópska ráðamenn og að henni hafi verið komið á framfæri við þá.