Mest andstaða hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins

Reuters

Mest andstaða er á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins við inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, gerði og birtar voru fyrir helgi. Meirihluti kjósenda allra stjórnmálaflokka er andvígur aðild að ESB fyrir utan Samfylkinguna og Bjarta framtíð.

Samtals eru 77% kjósenda Sjálfstæðisflokksins andvíg inngöngu í ESB samkvæmt könnuninni en 10,2% hlynnt. Afgangurinn, 12,7%, taka ekki afstöðu. Næstmest er andstaðan við inngöngu í ESB á meðal kjósenda Framsóknarflokksins eða 64,3% en 11,2% stuðningsmanna flokksins vilja hins vegar að Ísland verði aðili að sambandinu. Athygli vekur að um fjórðungur er óákveðinn eða 24,5%.

Samtals 53,5% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vilja ekki í ESB en 19,2% eru því hlynnt. Ríflega fjórðungur, 27,3%, tekur hins vegar ekki afstöðu. Meirihluti kjósenda Samstöðu er að sama skapi andvíg inngöngu í ESB samkvæmt könnuninni eða 51,6% á móti 20,3% sem vilja í sambandið.

Meirihluti stuðningsmanna Bjartrar framtíðar vill hins vegar aðild að ESB eða 44,1% gegn 37,3% sem eru því mótfallin. Þá eru 73,8% kjósenda Samfylkingarinnar hlynnt því að Ísland gangi í ESB en 12,3% eru því mótfallin.

Nánar verður fjallað um skoðanakönnunina í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert