Samanburðarleysi háir Íslendingum

Pétur Gunnarsson.
Pétur Gunnarsson. Kristinn Ingvarsson

Ég fékk áhuga á 18. öldinni vegna þess hversu ýkt hún er,“ segir Pétur Gunnarsson rithöfundur, en á sunnudagskvöld sýnir RÚV fyrsta sjónvarpsþáttinn af fjórum þar sem Pétur segir frá öldinni sem er einhver sú myrkasta í sögu þjóðarinnar. Þættirnir nefnast Átjánda öldin með Pétri Gunnarssyni. „Þetta er mjög merkileg öld,“ segir Pétur. „Á 18. öld komast Íslendingar lægst og þjóðin er við það að lognast út af. Um 1300 er talið að Íslendingar hafi verið á bilinu 70-80.000. Fimm öldum síðar, um 1700, eru þeir komnir niður í 50.000 og fækkar jafnt og þétt og við lok aldarinnar eru þeir um 40.000. Hugmyndin um að flytja alla Íslendinga til Jótlandsheiða var því ekkert fráleit. Þetta virtist vera búið spil.

En á sama tíma erum við að rísa upp. Á átjándu öld eru Íslendingar að öðlast nýtt sjálfstraust í gegnum fornritin. Það gerðist eiginlega fyrir tilviljun. Ferðasögur ná gríðarlegri útbreiðslu í Evrópu í kjölfar landafundanna á 16. og 17. öld. Forvitnilegt efni sem helst í hendur við uppkomu prenttækninnar. Smám saman þynnist efnið og úrkynjast og endar meira og minna í heilaspuna undir yfirskini ferðasögu. Meðal annars er farið að rekja sögur af Íslendingum – lýsingar sem eru fyrir neðan allar hellur og Íslendingar vilja ekki kannast við. Guðbrandur Þorláksson biskup fær skólameistara sinn, Arngrím lærða, til að hrekja þessar sögusagnir. Arngrímur skrifar sitt rit á latínu – til að ná útbreiðslu! – þar sem hann segir deili á Íslendingum og Íslandssögunni og fer með til Kaupmannahafnar til að fá það útgefið. Á þessum tíma eiga Svíar og Danir stöðugt í stríði um yfirráð í Skandinavíu, ýmist með vopnum eða sagnfræði sem snýst þá um að sýna fram á hvor þjóðin hafi fyrr sest að á Norðurlöndum. En hvorug þjóðin átti neinar ritaðar heimildir til að byggja á, þannig að þeir bregða á það ráð að fabúlera til skiptis goðsögur um uppruna sinn. Þegar síðan danskir sagnfræðingar reka augun í rit Arngríms lærða sjá þeir að á Íslandi eru til ritaðir textar um norræna sögu allt aftur til forsögulegra tíma. Arngrímur lærði er umsvifalaust settur á laun við að finna þessa texta og búa til útgáfu. Fljótlega fara Svíar í gang og kapphlaupið um íslensku handritin er hafið. Engir skilja þessi rit nema Íslendingar og fyrir vikið verður til alveg nýr starfsgrundvöllur fyrir íslenska fræðimenn – að viðbættu sjálfstrausti sem þetta nýja mikilvægi skapar. Einn af þessum fræðimönnum var Árni Magnússon, konunglegur skjalaritari, en hann er einmitt yrkisefni fyrsta þáttar.

Árið 1768 kemur út merkilegt rit, Deo, Regi, Patriae eða Um viðreisn Íslands sem Jón Eiríksson konferensráð er skrifaður fyrir, en byggir að stórum hluta á handriti sem Páll Vídalín hafði tekið saman í aldarbyrjun. Þar er framkölluð mynd af þjóðlífinu eins og það birtist í fornritunum og sýnir að Íslendingar voru í eina tíð gullaldarþjóð, bjuggu við hin prýðilegustu lífskjör og höfðu margvísleg úrræði til að sjá sér farborða. Hér er ekki verið að fjalla um hetjudáðir eða glæstan uppruna, heldur er grafist fyrir um hversdagsleg fyrirbæri á borð við mataræði, híbýlakost, sjósókn og samgöngur, gróðurfar, ræktun. Og svo auðvitað lögð á ráðin um viðreisn landsins. En með því að framkalla myndina af því hver við vorum er beinlínis verið að brýna Íslendinga samtímans. Þennan þráð taka fleiri upp, eins og til dæmis Eggert Ólafsson. Það er þetta sem er svo merkilegt við öldina, annars vegar ördeyðan og eymdin og hins vegar viðreisnarhugmyndin og sjálfstraustið sem er að fæðast.“

Gangandi rannsóknarskýrsla

Sérðu líkingu milli þessa tíma og okkar tíma?

„Maður getur alltaf séð líkingu. Mér finnst til dæmis áhugavert þegar Danakonungur sendir Árna Magnússon hingað til lands í blábyrjun 18. aldar til að gera allsherjar úttekt á landshögum og stjórnarfari. Árni gerir merkilegt manntal, sem mér skilst að sé eitt fyrsta manntal sem nær til heillar þjóðar, en ekki nóg með það, hann fær eiginlega alræðisvald því hann á líka að fara yfir dómaframkvæmdir og líta eftir því hvernig verslunarfyrirkomulaginu sé framfylgt og gera opinskátt um misfærslur. Þannig að hann er í raun eins og gangandi Rannsóknarskýrsla Alþingis! Maður sér sláandi líkindi þarna á milli. Það tekur hann og aðstoðarmann hans, Pál Vídalín, tíu ár að skrifa skýrsluna, viðamikið verk og merkilegt, í níu bindum! Hann riftir dómum, gagnrýnir embættismenn og kaupmenn og fær allt valdakerfið upp á móti sér. Þessari skýrslu var auðvitað stungið undir stól, hún kom ekki út fyrr en löngu eftir hans dag. En þarna sér maður vissulega ákveðna líkingu við okkur í dag.“

Þú ert með þessum þáttum að færa 18. öldina inn í sjónvarp. Er það ekki erfitt?

„Ég er afar forvitinn að vita hvernig þessir þættir munu mælast fyrir. Af sjálfu leiðir að myndefni frá þessum tíma er takmarkað, en þá verður okkur til bjargar að Ísland er til þess að gera lítt snert land. Ef maður fer um meginland Evrópu þá er það eins og garðurinn heima hjá manni, algjörlega tamið. En á Íslandi er landslagið, fjöllin, árnar, veðrið, hafið tímalaust. Leikmyndin er þarna í stórum dráttum. Maður getur svo auðveldlega talið sér trú um að með því að sýna landið eins og það er í dag sé maður að sjá það eins og það var þá. Þá má ekki gleyma útsjónarsemi leikstjórans, Björns Brynjólfs Björnssonar, myndlausnir og leikstjórn er alfarið á hans könnu.“

Þú skrifar textann við þessa mynd. Er þetta skáldlegur texti?

„Ég skrifaði þennan texta eins og ég skrifa texta.“

Þú leyfir þér þar að vera skáld og túlkandi?

„Ég kann ekkert annað.“

Þjóð í lausu lofti

Víkjum aðeins að fjölmiðlum, hvernig finnst þér fjölmiðlamenningin vera í landinu?

„Hrikaleg, eiginlega er hún okkar veikasti blettur. Ef þú flettir þýskum, dönskum, frönskum dagblöðum sérðu hvað íslensk blöð eru illa stödd. En ekki nóg með það: ef þú flettir eldri árgöngum af íslenskum dagblöðum sérðu hvað þeim hefur farið aftur! Nú verð ég að stilla mig um að gagnrýna sjónvarpið, eðli málsins samkvæmt, en samt finnst mér það ekki enn hafa gengist við því hlutverki sínu að vera spegill þjóðarinnar. Stórir málaflokkar: stóriðjan, kvótamálið og Evrópusambandið, brenna á þjóðinni en ég hef ekki orðið var við að sjónvarpið hafi gert heildarúttektir á þessum mikilvægu málaflokkum. Þetta umfjöllunarleysi gerir okkur ringluð, okkur finnst við ævinlega vera í lausu lofti.“

Þú talar um að sjónvarpið framkalli ekki mynd af íslensku þjóðinni. Hvernig finnst þér samfélagið, pólitíkin og andrúmsloftið vera í dag?

„Flestar þjóðir mótast af núningi við aðrar þjóðir. Þjóðir eru hlið við hlið, þær berjast hver við aðra, keppa hver við aðra og bera sig saman hver við aðra. Við Íslendingar erum einstök í heiminum að því leyti að við erum hér ein. Lífsbaráttan hefur haldið okkur við efnið lengst af, en í dag finnst mér eins og við séum að detta í sundur. Það sem aðrar þjóðir hafa til að afmarka sig, brýna sig, skilgreina sig – samanburðurinn við aðra – virðist áfátt hér. Hvert er hreyfiafl arabísku byltinganna? Samanburður við aðra. Hvað var það sem felldi járntjaldið? Samanburður við aðra. Hvað mun innan skamms fella Kína? Samanburður við aðra. Hvers vegna stendur Norður-Kórea kjur? Af því þar er komið í veg fyrir samanburð við aðra. Samanburðarleysið háir líka okkur Íslendingum. Hér er verk að vinna fyrir sjónvarp allra landsmanna – að bera okkur stöðugt saman við það sem aðrir gera og hugsa best.“

Ég hlýt að spyrja þig að því að hverju þú sért að vinna núna?

„Þessa stundina er ég að skrifa þrjá útvarpsþætti um Jean-Jacques Rousseau sem á 300 ára afmæli í júní næstkomandi. Síðan tek ég aftur til við skáldsagnahandrit sem ég leyfi mér að vera svo bjartsýnn – af því enn er apríl – að gera ráð fyrir að komi út fyrir næstu jól. Vinnuheitið er Íslendingablokk og fjallar, eins og heitið gefur til kynna, um fólk í blokk. Sögur íbúanna eru raktar, utan húss og innan, þannig að það er stórkostleg hætta á að bókin fjalli öðrum þræði um okkur öll.“

Það eru ansi mörg ár síðan skáldsaga kom frá þér. Af hverju hefur liðið svona langur tími?

„Mig minnir að síðast hafi komið skáldsaga árið 2004, Vélar tímans. Ég hef auðvitað gert ýmislegt í millitíðinni, greinasafn, þýðingu sem er Regnskógabeltið raunamædda, að ógleymdum tveimur bókum um Þórberg Þórðarson. Þær tóku tímann sinn.“

Skriftirnar eru ég

Hefurðu alltaf verið aðdáandi Þórbergs?

„Ég las hann á auðvitað strax á unglingsárum, en get ekki sagt að hann hafi verið einn af mínum uppáhaldshöfundum. Áhugi minn á Þórbergi vaknaði fyrir alvöru þegar ég starfaði með þeim merka félagsskap Félagi áhugamanna um bókmenntir. Árið 1989, á hundrað ára afmæli Þórbergs, héldum við mikið málþing um hann á Hótel Sögu. Svo óheppilega vildi til að daginn sem málþingið var haldið þurfti páfinn endilega að koma til Íslands og stal fyrir bragðið athyglinni frá málþinginu. Kannski var hann að hefna fyrir rætin skrif Þórbergs um kaþólskuna í Bréfi til Láru. En við þetta tækifæri flutti ég erindi um Þórberg og hélt mig aðallega við Sálminn um blómið og Suðursveitarbækurnar. En við að fara í saumana á þessum bókum sá ég að Þórbergur var miklu merkilegri höfundur en ég hafði gert mér grein fyrir. Svo leiddi eitt af öðru.

Þórbergur er höfundur sem vill vera algerlega hreinskilinn og segja allt af létta af sjálfum sér í bókum sem eru sjálfsævisögulegar. Svo gerðist það árið 1983 að út kom bók sem enginn átti von á, Bréf til Sólu, 52 ástarbréf sem Þórbergur hafði skrifað ástkonu sinni til tíu ára, gefin út af dóttur Þórbergs. Flestir höfðu enga hugmynd um þessa ástkonu, né heldur að þeim Þórbergi hefði orðið barns auðið. Mér þótti forvitnilegt að til hliðar við hina opinberu sjálfsævisögu Þórbergs skyldi vera önnur ævisaga og langaði til að framkalla hana. Þannig að ég dembdi mér í að lesa dagbækur Þórbergs með meiru og smám saman framkallaðist þessi hin ævisaga Þórbergs sem kom út í tveimur bindum.“

Þannig að Þórbergur var ekki þessi einlægi maður sem hann þóttist vera?

„Hann var miklu meira skáld og rithöfundur en hann sagðist vera. Hann var alltaf að plata okkur og dáleiða með dagsetningum og ársetningum og veðurlýsingum.“

Þú ert sískrifandi, finnst þér gaman að skrifa?

„Skriftirnar eru ég. Þú getur eins spurt mig: Finnst þér gaman að lifa? Ég hef aldrei prófað neitt annað. Forvitni er grunnþáttur í mér, að vita meira í dag en í gær. Og svo auðvitað „lífsnautnin frjóva, alefling andans og athöfn þörf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert