Dr. Ernir Kristján Snorrason, geðlæknir og taugasálfræðingur, andaðist á líknardeild Landspítalans 26. apríl sl, 68 ára að aldri.
Ernir var fæddur 17. mars 1944 í Reykjavík, sonur Snorra Jónssonar verslunarmanns og Bjargar G. Kristjánsdóttur húsfreyju.
Ernir ólst upp í Reykjavík og lauk kandídatsprófi í sálfræði frá Université Strasbourg í Frakklandi 1971. Hann hlaut almennt lækningaleyfi á Íslandi 1988, í Noregi 1993 og sérfræðingsleyfi í geðlækningum 1994. Ernir starfaði á Íslandi, í Frakklandi og Noregi, m.a. sem læknir og kennari og rak eigin lækningastofu á Domus Medica.
Hann var stofnandi þróunarfyrirtækisins Taugagreiningar hf, meðstofnandi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. 1994 og stofnandi breska lyfjafyrirtækisins Hunter-Fleming árið 1999, sat í stjórn þess og var þróunarstjóri.
Ernir sinnti einnig ritstörfum og skáldsaga eftir hann er væntanleg. Þá var hann mikill hestaræktandi. Eftirlifandi eiginkona Ernis er Sólveig Franklínsdóttir. Eignuðust þau tvö börn og er annað þeirra á lífi. Ernir lætur einnig eftir sig þrjú börn frá fyrri samböndum og þau eru öll á lífi.