„Það er kominn tími til þess að ríkisstjórnin fari að svara því hvað hún ætli að gera þegar kemur að skuldavanda heimilanna. Það hafa í raun aldrei nein svör komið frá henni varðandi þessi mál.“
Þetta segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag, en í dag mun fara fram sérstök umræða um úrlausnir á skuldavanda heimilanna á Alþingi. Unnur er málshefjandi og Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra mun, veita andsvör.
„Við verðum að fara að fá upplýsingar frá ríkisstjórninni, en við höfum kallað eftir þeim í langan tíma. Það er líka mikilvægt að fá að vita hver skilgreining ríkisstjórnarinnar á þessum vanda er svo við séum að tala um sama hlutinn. En það er líklegt að þau úrræði sem ríkisstjórnin hafi boðið upp á fyrir skuldug heimili hafi einmitt skilað jafn litlum árangri og raun ber vitni af því að ríkisstórnin veit í raun ekki hver vandinn er,“ segir Unnur.