Kvöldfundur á þingi vegna fjölda mála

Tillaga Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis um þingfund í kvöld …
Tillaga Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis um þingfund í kvöld var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 17. mbl/Ómar

Samþykkt var með atkvæðagreiðslu á Alþingi nú klukkan rúmlega 15 að þingfundur verði haldinn fram eftir kvöldi. Seinni fundur var fyrst settur á dagskrá í morgun í ljósi þess að margir tugir mála eiga eftir að fá afgreiðslu. Nokkrir þingmenn gagnrýndu starfshætti þingsins harðlega af þessu tilefni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar og Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður Framsóknarflokksins gagnrýndu öll að dagskrá þingsins sé breytt með svo stuttum fyrirvara. 25 kusu með því að kvöldfundur verði haldinn en 17 gegn því. 2 greiddu ekki atkvæði. 

Óboðleg vinnubrögð

Þór Saari benti á að tvær vikur séu nú liðnar síðan lýst var eftir því á fundi þingflokksformanna að settur yrði fram listi um forgang þeirra þingmála sem bíða afgreiðslu, en þau skipta tugum. Sá listi hafi enn ekki litið dagsins ljós. Þór sagði þau vinnubrögð óboðleg að enn einu sinni ætti að ljúka vorþingi með því að vinna fram á nætur og afgreiða mál með hraði þannig að þingmenn hefðu ekki hugmynd um hvað þeir séu að samþykkja. 

Sigurður Ingi sagði þessi vinnubrögð ekki til sóma og sú lausn að halda seinni fund fram á kvöld og nótt væri ekki skynsamleg leið til að leysa þann vanda sem ríkisstjórnin hefði skapað með því að koma þingmálum allt of seint inn á þingið. Sigurður Ingi sagðist óttast að þrátt fyrir vinnu fram á nætur muni vorþingi enda með hálfunnin mál sem bíði næsta þings.

Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingar sagði hinsvegar að mikilvægt mál yrðu til umræðu á fundinum í kvöld sem nauðsynlegt væri að ljúka og því þyrfti að nýta þann tíma sem gæfist. „Þetta eru mörg brýn mál og tel ég því rétt að hafa hér fund til að koma þeim til afgreiðslu," sagði Magnús Orri.

Meðal þeirra mála sem eru á dagskrá seinni þingfundar í kvöld eru neytendalán, aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, réttindagæsla fyrir fatlað fólk, greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert