Kvöldfundur á þingi vegna fjölda mála

Tillaga Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis um þingfund í kvöld …
Tillaga Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis um þingfund í kvöld var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 17. mbl/Ómar

Samþykkt var með at­kvæðagreiðslu á Alþingi nú klukk­an rúm­lega 15 að þing­fund­ur verði hald­inn fram eft­ir kvöldi. Seinni fund­ur var fyrst sett­ur á dag­skrá í morg­un í ljósi þess að marg­ir tug­ir mála eiga eft­ir að fá af­greiðslu. Nokkr­ir þing­menn gagn­rýndu starfs­hætti þings­ins harðlega af þessu til­efni.

Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Þór Sa­ari þingmaður Hreyf­ing­ar­inn­ar og Sig­urður Ingi Jó­hanns­son þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins gagn­rýndu öll að dag­skrá þings­ins sé breytt með svo stutt­um fyr­ir­vara. 25 kusu með því að kvöld­fund­ur verði hald­inn en 17 gegn því. 2 greiddu ekki at­kvæði. 

Óboðleg vinnu­brögð

Þór Sa­ari benti á að tvær vik­ur séu nú liðnar síðan lýst var eft­ir því á fundi þing­flokks­formanna að sett­ur yrði fram listi um for­gang þeirra þing­mála sem bíða af­greiðslu, en þau skipta tug­um. Sá listi hafi enn ekki litið dags­ins ljós. Þór sagði þau vinnu­brögð óboðleg að enn einu sinni ætti að ljúka vorþingi með því að vinna fram á næt­ur og af­greiða mál með hraði þannig að þing­menn hefðu ekki hug­mynd um hvað þeir séu að samþykkja. 

Sig­urður Ingi sagði þessi vinnu­brögð ekki til sóma og sú lausn að halda seinni fund fram á kvöld og nótt væri ekki skyn­sam­leg leið til að leysa þann vanda sem rík­is­stjórn­in hefði skapað með því að koma þing­mál­um allt of seint inn á þingið. Sig­urður Ingi sagðist ótt­ast að þrátt fyr­ir vinnu fram á næt­ur muni vorþingi enda með hálf­unn­in mál sem bíði næsta þings.

Magnús Orri Schram þingmaður Sam­fylk­ing­ar sagði hins­veg­ar að mik­il­vægt mál yrðu til umræðu á fund­in­um í kvöld sem nauðsyn­legt væri að ljúka og því þyrfti að nýta þann tíma sem gæf­ist. „Þetta eru mörg brýn mál og tel ég því rétt að hafa hér fund til að koma þeim til af­greiðslu," sagði Magnús Orri.

Meðal þeirra mála sem eru á dag­skrá seinni þing­fund­ar í kvöld eru neyt­endalán, aðgerðir gegn skipu­lagðri glæp­a­starf­semi, rétt­inda­gæsla fyr­ir fatlað fólk, greiðsluaðlög­un ein­stak­linga o.fl. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert