Lúxusvandi í ferðaþjónustu 18. júní

Sex skemmtiferðaskipið verða í Reykjavíkurhöfn 18. júní.
Sex skemmtiferðaskipið verða í Reykjavíkurhöfn 18. júní. mbl.is/Júlíus

„Þetta er ákveðið lúxusvandamál,“ segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, en 18. júní verða sex skemmtiferðaskip í höfn í Reykjavík og um 60 lendingar verða á Keflavíkurflugvelli. Flytja þarf rútur úr öðrum landshlutum til að ráða við þessi verkefni.

Það liggur fyrir að veruleg aukning verður á flugferðum til landsins í sumar. Það verður því ekki óalgengt að 60 flugvélar lendi í Keflavík á dag í sumar. 18. júní hittist hins vegar svo á að 6 skemmtiferðaskip verða í höfn í Reykjavík. Það verður því nóg að gera hjá þeim sem starfa í ferðaþjónustunni þennan dag.

Kristján sagði að reynt væri að dreifa komum skemmtiferðaskipa sem koma til landsins, en stundum væri ekki hægt að koma í veg fyrir að mörg skip væru í höfn á sama tíma. Ferðaþjónustan væri í nokkurn tíma búin að vita af þessum degi og reynt yrði að takast á við þetta verkefni eftir bestu getu.

„Það er hins vegar ljóst að það munu ekki allir fá að fara í allar þær ferðir sem þeir vilja þennan dag,“ sagði Kristján. Borgin yrði væntanlega full af ferðamönnum og rútur myndu allan daginn keyra á Gullfoss og Geysi og aðra vinsæla ferðamannastaði.

Kristján sagði að það væri alls ekki alltaf svona mikið að gera hjá þeim sem reka rútufyrirtæki. Hann sagði ferðaþjónustuna hlakka til að takast á við verkefni sumarsins og allir vonuðu að eldgos eða önnur óáran myndu ekki setja strik í reikninginn eins og undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert