Ræddu slæma stöðu leigjenda á þingi

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framtíðarsýn skortir um hvernig unnt sé að leysa vanda þeirra landsmanna sem búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Þetta sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi nú síðdegis. 

Pétur vakti máls á skýrslu Hagstofunnar sem birt var í morgun, þar sem fram kemur að húsnæðiskostnaður íþyngi verulega 11% landsmanna. „Spurning mín til [Guðbjarts Hannessonar] velferðarráðherra er sú hvort það sé fullnægjandi, á sama tíma og ríkið er að setja tugi milljarða til að niðurgreiða lán þeirra sem skulda, að þetta sé staðan hjá lægst launaða fólkinu og þeim sem leigja," sagði Pétur Blöndal. Hann sagði umræðuna alla snúast um skuldara, eflaust af illri nauðsyn, en á sama tíma gleymist að tala um leigjendur sem búi við hækkandi leigu og mikið öryggisleysi.

Leigjendur verst staddir

Í skýrslu Hagstofunnar kemur m.a. fram að árið 2011 vörðu 11,3% Íslendinga yfir 40% ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað. Þeir sem líklegastir eru til að búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað eru ungt fólk, þeir sem búa í óniðurgreiddu húsnæði, búa einir eða eru í lægsta tekjufimmtungi.

Verst staddir eru leigjendur, en um 22% þeirra borga meira en 40% af tekjum sínum í húsnæði, samanborið við 17,2% hjá eigendum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í svari við fyrirspurn Péturs að mikilvægt sé að skoða þessar tölur, hvað þær segja og hvaða ráð séu til að bregðast við. Hann benti á að byrði húsnæðiskostnaðar hefði þó lækkað. Þannig kemur fram í skýrslunni að hlutfall þeirra Íslendinga sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað var hæst árið 2006, 14,3% og lækkaði því um 3 prósentustig fram til ársins 2011 þegar það var 11,3%.

Vorum á hræðilegri leið fyrir hrun

Guðbjartur sagði að skýrslan væri „áfellisdómur yfir séreignarstefnunni" sem var ríkjandi í landinu fyrir hrun og hefði leitt af sér ónýtan leigumarkað. „Við vorum á þessum tíma á hræðilegri leið sem þarf að laga og okkur hefur tekist það mjög vel að jafna stöðuna. En við eigum töluvert mörg skref eftir," sagði Guðbjartur. 

Hann sagðist ekki sammála Pétri í því að framtíðarsýn skorti, því stefnan væri skýr um að jafna stöðu leigjenda og kaupenda á húsnæðismarkaði. Stjórnvöld hafi átt í samskiptum við m.a. lífeyrissjóðina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til að ná þessu fram. 

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert