Ferðamenn á Íslandi fá tækifæri til að vera á meðal þeirra fyrstu í heiminum til að fara inn í kvikuþró kulnaðs eldfjalls, er boðið verður í fyrsta skipti upp á skipulagðar ferðir ofan í Þríhnúkagíg á sex vikna tímabili í sumar. Ferðin kostar 37 þúsund krónur og verður dvalið ofan í gígnum í um eina klukkustund.
Inni í þeirri upphæð verða ferðir til og frá hóteli á höfuðborgarsvæðinu, leiðsögn um svæðið og ofan í gígnum. Ferðirnar verða farnar á tímabilinu 15. júní-31. júlí. Er reiknað með að farnar verði fjórar ferðir á dag og komast 15 manns í hverja ferð og er aldurstakmarkið tólf ár. Ferðin verður 5-6 klukkustundir samanlagt.
„Í sumar munum við gera könnun meðal erlendra ferðamanna um viðhorf og upplifun þeirra af gígnum og eru þessar ferðir hluti af því verkefni,“ segir Björn Ólafsson, forsvarsmaður Þríhnúka sem býður upp á ferðirnar, en félagið hefur uppi hugmyndir um að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan ferðamönnum árið um kring í gegnum göng í framtíðinni.
Björn segist enn ekki vita hvernig aðsóknin verði. „Við viljum hafa nægilegan fjölda til að gera marktæka könnun á upplifun fólks af gígnum en okkar vonir standa til þess að gera þetta að heilsárs ferðamannastað og eru þessar ferðir í sumar liður í rannsóknum á því.“
Ferðirnar hafa þegar vakið athygli því um þær er fjallað í breska blaðinu The Daily Telegraph í dag. Í frétt Telegraph kemur fram að ferðaþjónustufyrirtækið Back Tomato bjóði upp á skipulagðar ferðir til Íslands í sumar og að Þríhnúkagígur sé á meðal þess sem skoðað verði í ferðinni.
Björn segir að fyllstu varúðar verði gætt við ferðirnar í sumar og séu þær þess vegna takmarkaðar og aðallega hugsaðar fyrir erlenda ferðamenn þó öðrum sé velkomið að kaupa ferð. „Þetta verður því tiltölulega fámennur hópur sem kemur í sumar og fer um afmarkað svæði,“ segir Björn. „Þessi hópur kemur því ekki til með að spilla neinu. Hann mun fara um mjög afmarkað svæði niðri í gígnum. Við höfum því ekki áhyggjur af skemmdum miðað við þennan fjölda og þær ráðstafanir sem við gerum.“
Hluta af því verði sem ferðin kostar verður varið til frekari rannsókna á Þríhnúkagíg en bæði íslenskir og erlendir háskólar rannsaka ýmsa þætti Þríhnúka.
Gríðarstór gíghellir
Þríhnúkagígur er gígur sem liggur í norðaustasta Þríhnúknum, rúma 4 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Niður frá gígopinu gengur gríðarmikill gíghellir, Þríhnúkahellir. Hann er eitt stærsta og merkasta náttúrufyrirbæri sinnar tegundar á jörðinni.
Gígopið er þverhnípt og um 4 sinnum 4 metra stórt. Fyrst var sigið niður í gíghellinn 1974, og 1991 var hann svo kannaðar ýtarlega og kortlagður. Þríhnúkahellir er flöskulaga ketill sem er um 150 þúsund rúmmetrar að stærð. Botninn er á stærð við fótboltavöll og er 120 metra undir yfirborði jarðar, og þaðan liggja svo gígrásir niður á um 200 metra dýpi.
Í ljósi þess hvað hann þykir sérstakur hafa verið settar fram hugmyndir um hvernig megi bæta aðgengi að honum, sem fæli m.a. í sér að bora göng inn í hann miðjan og byggja útsýnispall inni í honum.