Eitt af samningsmarkmiðum Íslands í aðildarviðræðum við ESB er að veiðistjórn á svartfugli verði áfram í höndum íslenskra stjórnvalda. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í svari við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni.
Guðlaugur Þór spurði um tengsl undirbúnings umsóknar um aðild að Evrópusambandinu og friðunar svartfugls. Hann sagði ljóst að fuglatilskipun ESB kæmi til með að hafa áhrif á Íslandi ef við göngum í sambandið. Þetta myndi hafa mikið inngrip inn í mál á Íslandi frá Brussel en þar á bæ hefðu menn ekki mikla þekkingu á fuglaveiðum á Íslandi. Hann benti á að samkvæmt tilskipuninni væru hlunnindaveiðar ekki rök til þess að bregða frá meginefni tilskipunarinnar.
Svandís Svavarsdóttir sagði að í kjölfar aðildarumsóknar Íslands hefði verið farið yfir fuglatilskipun ESB og upplýsingar um mun á henni og íslenskum lögum lægi fyrir á vef utanríkisráðuneytisins. Þessi tilskipun væri hins vegar ekki ástæða fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til hér á landi. Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar sýndu verulegan samdrátt í fimm stofnun svartfugls hér við land. Hún sagði að sumir vildu ganga svo langt að kalla þetta hrun.
Svandís sagði að ástæðan fyrir þessu væri ætisskortur en ekki veiðar. Þegar hins vegar aðstæður væru með þessum hætti væri ástæða til að fara varlega í veiðar. Hún sagði að ekki lægju fyrir rannsóknir á áhrifum hlunnindaveiða á svartfuglsstofna, en ekkert benti til að hlunnindaeigendur hefðu umgengist svartfuglsstofna á þann hátt að þeim stafaði hætta af þessari umgengni. Þó lægi fyrir að um fjórðungur af lundaveiði væri fullorðinn stofn. Þetta vekti spurningar um hvort forsendur væru brostnar fyrir lundaveiði.
Guðlaugur Þór sagði að í dag værum við að stjórna nýtingu á svartfugli, en nú værum við að fara í viðræður við ESB um að fá að halda áfram að stjórna þessu.
Svandís sagði að starfshópur sem hún hefði skipað um þessi mál hefði ekki verið stofnaður í þágu ESB heldur í þágu svartfugls við Ísland. Hún benti að lokum á að veiðar á þessum fimm svartfuglategundum væru bannaðar við Noreg og Noregur hefði ekki sótt um aðild að ESB.