Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, vill að verkalýðshreyfingin efni til atkvæðagreiðslu um ESB og tekur þar með undir skrif Guðna Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Guðni skrifaði m.a.: „Sem gamall félagi í verkalýðshreyfingunni og maður sem trúir að þar á bæ ríki lýðræðisást og að forystan vilji á hverjum tíma marka stefnu í sátt við félagsmenn sína þá skora ég hér með á formann og forystu ASÍ að spyrja alla félagsmenn hreyfingarinnar um afstöðu þeirra til Evrópusambandsins hvað aðild varðar og upptöku evru.“
Í grein Styrmis á Evrópuvaktinni segir að ekki ætti að vera erfitt fyrir forystusveit ASÍ að verða við þessari áskorun Guðna. „Með nútíma tölvutækni er auðvelt fyrir öll verkalýðsfélög landsins að efna til allsherjar-atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til aðildar Íslands að ASÍ,“ skrifar Styrmir.
„Það er auðvitað sjálfsagt fyrir verkalýðshreyfinguna, vilji hún standa undir nafni, að beita svo lýðræðislegum vinnubrögðum í þessu sambandi. Fámennur hópur í forystu ASÍ getur ekki leyft sér að tala árum saman í nafni verkalýðshreyfingarinnar á þann veg sem þeir hafa gert. Sjálfir hljóta þeir að líta svo á, að fái þeir í slíkri atkvæðagreiðslu stuðning við sín sjónarmið komi þeir margfalt sterkar fram en ella. Verði niðurstaðan hins vegar sú, að meirihluti félagsmanna í verkalýðshreyfingunni reynist andvígur aðild getur ekki verið að forystumennirnir vilji tala þvert á vilja meirihluta félagsmanna sinna.
Á morgun er 1. maí, baráttudagur verkalýðsins. Þá flytur forseti ASÍ að venju stefnumarkandi ræðu. Það væri vel til fallið að hann tilkynni um slíka lýðræðislega ákvörðun forystu ASÍ á þeim degi,“ skrifar Styrmir Gunnarsson.