Fasistar, nasistar og kommúnistar

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins. mbl.is/Frikki

„Í opinberri umræðu er það orðið daglegt brauð að borið er á fólk að það sé landráðamenn, fasistar, nasistar eða  kommúnistar. Því er blákalt haldið fram að pólitískir andstæðingar ætli sér að koma upp samskonar útrýmingarbúðum og sovétið eða nasistar voru með. Lýðskrumið ræður öllu í opinberri umræðu þar sem öllu fögru er lofað blandað saman við hræðsluáróður um meinta illsku, þar sem staðið sé vegi fyrir framförum og stöðugleika,“ sagði Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, í hátíðarræðu á Selfossi í dag. Greint er frá ræðunni á fréttavefnum DFS. „Þetta orðbragð er síðan flutt inn á heimili landsmanna í byrjun hvers einasta fréttatíma sjónvarpsins. Það minnir mann á hvernig fasistahreyfingar millistríðsáranna beittu lýðskrumi, hræðsluáróðri og óvinavæðingu í tilraunum sínum til að komast til valda.“

Guðmundur sagði að sú hagstjórn sem hefur verið ástunduð hér á landi frá lýðveldisstofnun hefur birst okkur í 25% meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár.

„25% verðbólga samsvarar að fjórðungur árlegra tekna sé færður frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda og hins opinbera. Íslenskir launþegar hafa sem sagt eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf og rekstur hins opinbera. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Þeir tala um að verið sé að tryggja atvinnustigið, það er gert með launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári til þess að lagfæra rekstrarafkomu fyrirtækjanna og hins opinbera. Ásamt því að greiða niður óraunsæ kosningaloforð.

Þetta kalla stjórnmálamenn að tryggja gott atvinnuástand, en hið rétta er að það er verið að skattleggja launamenn aukalega með þessu fyrirkomulagi. Gengisfelling er eignaupptaka hjá einum hópi. Þeir fjármunir gufa ekki upp, þeir lenda í vösum annarra.“

Guðmundur minnti á að frá árinu 2000 til haustsins 2008 varð 13% kaupmáttaraukning hér á landi, en hún hafi nær öll tapast í hruninu, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum. „Danir féllu ekkert í kaupmætti við efnahagshrunið, en hafa bætt við sig um 2% eftir 2008 og tæp 7% það sem af er þessari öld og halda auk þess sínum eignum. Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt kaupmáttinn um 3% eftir efnahagshrunið og 8% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum. Finnland hefur bætt við sig 6% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt kaupmáttinn um 12% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum. Landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum hefur aukist frá 2007 að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Í þessu sambandi verðum við að muna að við erum í litlu hagkerfi, sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Við eru fámenn þjóð sem býr í stóru landi, en gerum kröfu um sambærilegt velferðarkerfi og er á hinum Norðurlandanna. Hvernig ætlar Ísland að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess, spyr fólk sem er að velta fyrir sér stöðunni?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert