Fleiri en einn ráðherra í ráðuneyti?

Stjórnarráðshúsið.
Stjórnarráðshúsið. mbl.is/Hjörtur

Mögulegt er að fleiri en einn ráðherra gegni embætti í hverju ráðuneyti stjórnarráðsins, en frá og með í dag gildir ekki bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að þegar skipt er störfum með ráðherrum skuli hvert ráðuneyti óskipt lagt til eins og sama ráðherra.

Þetta kemur fram í nefndaáliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Í því er meðal annars farið yfir kosti og galla sameiningar ráðuneyta. Vísað er í gesti sem komu fyrir nefndina en þeir viðruðu áhyggjur af því af því að með sameiningunni yrðu nýju ráðuneytin það stór að erfitt gæti reynst fyrir einn ráðherra að hafa yfirsýn yfir alla þá málaflokka sem yrðu á hans málefnasviði.

Af þeim sökum er í álitinu minnst á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 115/2011 gildi ekki lengur, frá og með 1. maí 2012, ákvæði 5. gr. laga nr. 73/1969 þar sem sagði: „Þegar skipt er störfum með ráðherrum skal hvert ráðuneyti óskipt lagt til eins og sama ráðherra.“ Því sé mögulegt að fleiri en einn ráðherra gegni embætti í ráðuneyti sem gæti komið til móts við þær áhyggjur að erfitt sé fyrir einn ráðherra að hafa yfirsýn.

125-225 milljónir króna í kostnað

Þá var farið yfir kostnað við breytingarnar, en á fundi nefndarinnar var lagt fram minnisblað með frumdrögum að kostnaðargreiningu á verkefninu. Þar kom fram að nokkrar útfærslur eru mögulegar í stöðunni og fer kostnaður eftir því hvaða leið verður valin. Fram kom á fundi nefndarinnar að áætlaður kostnaður vegna þessara tillagna á frumstigi geti numið 125-225 milljónum króna. Um sé að ræða einskiptiskostnað þannig að gera megi ráð fyrir að húsnæðiskostnaður ráðuneytanna til lengri tíma muni lækka frá því sem hann er í dag.

Ennfremur leggur meirihlutinn áherslu á að farið verði í ítarlegri kostnaðargreiningu áður en endanleg leið er valin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert