Fullkunnugt um ólögmætið

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

„Hvernig stendur á því að ekki nokkur einasti maður er látinn sæta ábyrgð vegna þessa?“ Þannig spurði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í 1. maí ræðu sinni og átti þar við að gengistryggð lán voru lánuð til einstaklinga og fyrirtækja þó vitað væri um ólögmæti þeirra.

Vilhjálmur segir ótrúlega atburðarrás hafa farið af stað eftir að Hæstiréttur dæmdi gengistryggðu lánin ólögleg í júní 2010. Þá hafi íslensk stjórnvöld slegið skjaldborg um fjármálastofnanir. Ekki hafi mátt ógna fjármálastöðugleika fjármálastofnanna. „En hvað með fjármálastöðugleika íslenskra heimila? Mátti fórna þeim á altari ólaga, eða með öðrum orðum setja lög sem síðan stóðust ekki skoðun Hæstaréttar?“

Hann sagði það sorglega í málinu að Samtök fjármálafyrirtækja hafi vel vitað að gengistrygging íslenskra lána væri brot á lögum enda hefðu samtökin skilað inn umsögn til Alþingis fyrir níu árum þar sem á það var bent að þetta lánaform stæðist ekki íslensk lög. Þar af leiðandi átti Alþingi einnig að vera það fullkunnugt að þessi lán stæðust ekki skoðun.

Brýnt að efla atvinnulífið

Þá benti Vilhjálmur á að þó svo slagorð dagsins væri Vinna er velferð sé ekki velferð hjá tæplega tólf þúsund manns sem eru án atvinnu. „Það er einnig rétt að benda á það að 8.500 manns hafa flutt af landi brott, umfram aðflutta frá hruni. Það er einnig líka mikilvægt að almenningur átti sig á því að fjölmargir hafa misst sinn bótarétt til atvinnuleysisbóta og hafa færst yfir á sveitarfélögin og mælast því ekki inni í atvinnuleysistölum. Á þessum forsendum er það morgunljóst að eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnvalda, er að koma tannhjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik.“

Að endingu sagðist Vilhjálmur hafa vonast til þess þau gildi sem voru við lýði hér á landi í áratugi, þ.e. græðgi, sérhagsmunagæsla og einkavinavæðing, yrðu látin víkja þegar ný ríkisstjórn tók við í janúar 2009 „en því miður hefur ekki tekist að eyða þessum gildum frá því ný ríkisstjórn tók við. vil fá að sjá ný gildi tekin upp hér á landi, gildi er lúta að réttlæti, jöfnuði og sanngirni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert