Töluvert er um að verslanir séu lokaðar í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í dag, 1. maí. Þrettán verslanir eru lokaðar en yfir 100 verslanir eru í Kringlunni. Í Smáralind eru hins vegar allar verslanir opnar, nema skartgripaverslunin Jón og Óskar.
Formaður VR fór þess á leit við forsvarsmenn verslananna að þeir myndu endurskoða ákvörðun sína að hafa opið í dag. Verslunarmiðstöðvarnar hafa verið opnar á þessum degi undanfarin 8 ár hið minnsta og eru jafnan mjög vel sóttar af viðskiptavinum.
Á vefsvæði Kringlunnar segir að verslunareigendum sé valfrjáls hvort þeir hafi opið. Verslun Hagkaups sé opin og mikill meirihluti verslana. „[N]ákvæmur listi liggur ekki fyrir svo að öruggast er að hafa samband við verslanir beint til að forðast fýluferðir.“