Byggingavöruverslunin Bauhaus, sem mun von bráðar opna verslun sína í Grafarholti, hefur undanfarið auglýst 12% verðvernd á öllum vörum.
Samkvæmt auglýsingum verslunarinnar felst verndin í því að ef viðskiptavinur finnur sömu vöru og hann keypti í versluninni á lægra verði hjá samkeppnisaðila, innan við 30 dögum frá kaupum, þá muni Bauhaus endurgreiða honum mismuninn auk 12% af verði samkeppnisaðilans.
Auk verðverndar býður Bauhaus viðskiptavinum sínum upp á 5 ára ábyrgð á rafmagnsverkfærum.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að verslanir BYKO bjóða einnig upp á verðvernd. „Við erum með verðvernd á í rauninni öllum vörum. Ef þú kaupir vöru hjá okkur og sérð sömu eða sambærilega vöru auglýsta ódýrari annars staðar, með „auglýst“ er líka átt við hilluverð á vörunni, þá endurgreiðum við mismunin innan 20 daga og 10% af mismuninum að auki,“ segir Guðmundur H. Jónsson, forstjóri BYKO.