Íbúar fjölbýlishúss í Brautarholti í Reykjavík segjast orðnir langþreyttir á því að sóðaskapur sé látinn viðgangast í nágrenni hússins á götum, bílastæðum og gangstéttum. Svo virðist sem hverfið sé undanskilið þrifum á vegum borgaryfirvalda.
Íbúarnir segja að stóeflis hreinsunartæki fari hvert vor um götuna en illa sé þrifið og íbúum því gert að búa við argvítugan sóðaskap ár eftir ár.
„Ekki er nóg með að verktökum sé greitt fyrir vinnu sem þeir inna aldrei af hendi, heldur virðist sem borgaryfirvöldum sé nákvæmlega sama þótt fénu sé þannig beinlínis sóað. Á þetta við um allar borgarstjórnir og embættismenn sem setið hafa mörg undanfarin ár, þann tíma sem við höfum búið hér - og er reyndar alvarlegt lögbrot,“ segir í ítarlegu bréfi íbúanna sem sent var mbl.is.
„Við greiðum okkar skatta og skyldur en horfum upp á fé renna úr greipum yfirvalda sem falið er að fara með það,“ segir í bréfinu. „Eftirlitsskyldu sinna þau augljóslega ekki, hvorki með gatnahreinsun né heldur með umhirðu á lóðum, sem þeim ber jafnframt skýr skylda til.“
Nefna íbúarnir sérstaklega lóð gömlu Hampiðjunnar, sem sé „vígvöllur hraklegustu sóða.“ Viðskiptamenn hafi braskað með lóðina lengi og borgin hafi ekkert aðhafst hvað það varðar.
Kvartanir til borgaryfirvalda engan árangur borið, segja íbúarnir. Reykjavíkurborg hafi síðast 11. apríl verið sent bréf með ljósmyndum eftir að hreinsunartækin fóru um götuna án þess að hreinsa hana almennilega. Engin svör hafa enn borist við kvörtunum íbúanna.