Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis í málinu gegn Geir H. Haarde, segir að Landsdómi hefði verið í lófa lagið að sakfella Geir samkvæmt 141. grein almennra hegningarlaga, líkt og gerð var varakrafa um. Hún segist ósátt við meðferð dómaranna á þeirri kröfu.
Umrædd grein kveður á um að opinber starfsmaður, sem gerist sekur um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. „Það þýðir víst ekki að deila við dómarana, allra síst ef þeir eru níu, en það má samt rökræða niðurstöðuna og það er mín skoðun að það hefði átt að sakfella fyrir 141. grein almennra hegningarlaga," sagði Sigríður, á málstofu sem Lagastofnun Háskóla Íslands og Orator, félag laganema við HÍ, stóðu fyrir í dag.
Ákæruskjal saksóknara Alþingis formsatriði
Sigríður sagði að í gegnum Landsdómsferlið mætti segja að hún hafi fengið nýja sýn á stjórnmálin í landinu. Hún nefndi tvö atriði sem hún sagði að væru sér sérstaklega hugleikinn eftir dómsuppkvaðninguna. Í fyrsta lagi sagðist hún hafa velt fyrir sér stöðu saksóknara Alþingis, eftir að hún var kjörin til að fara með málið gegn Geir Haarde.
„Staða þessa saksóknara er frábrugðin stöðu saksóknara í hefðbundnum málum og þar er fyrst til að taka að saksóknari ákveður ekki hvað ákært skuli fyrir, heldur Alþingi," sagði Sigríður. Alþingi ákveði sakarefnin áður en saksóknari fari í sína gagnaöflun. Þannig væri grundvöllur málsins þingsályktun, en ekki ákæruskjalið. „Að mínu mati er það því hálfgert formsatriði að gefa út þetta ákæruskjal." Hún nefndi líka að vinna Rannsóknarnefndar Alþingis, sem málið átti að byggja á, væri fordæmalaus og setti það í annað samhengi en hefðbundin sakamál.
Ósátt við meðferð dómsins á varakröfunni
Í öðru lagi sagði Sigríður að sem sækjandi málsins væri meðferð dómsins á varakröfunni, um sakfellingu skv. 141 grein almennra hegningarlaga, talsvert hugleikinn. Sagðist hún ósammála þeirri niðurstöðu dómsins, sem kemur fram á blaðsíðu 360, að Geir hafi ekki getað haldið uppi vörnum um þetta ákvæði vegna þess að saksóknari hafi ekki reifað málið með fullnægjandi hætti.
Sigríður benti á að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að sannað teljist að stórfelld hætta hafi steðjað að íslenskum fjármálastofnunum og heill ríkisins frá 7. febrúar 2008 og að Geir Haarde hafi hlotið að vera sú hætta ljós. Á honum hafi sem forsvarsmanni ríkisstjórnarinnar hvílt athafnaskylda. „Að þessu kemst dómurinn, þetta liggur alveg fyrir," sagði Sigríður. Í ljósi þessa sagðist hún ekki skilja hvers vegna dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að Geir hafi bakað sér refsiábyrgð.
Ekki með svör um erlenda banka uppi í erminni
Sigríður nefndi í framhaldinu að hafi dómurum þótt málið vanreifað hefðu þeir, lögum samkvæmt, getað farið fram á það að fá frekari gögn, eða spurt eftir nánari upplýsingum. Eftir málflutning sinn fékk saksóknari hinsvegar aðeins eina spurningu frá dómara, sem varðaði það hvort hún gæti nefnt dæmi um erlenda banka sem gripið hefðu til þess ráðs að flytja útibú úr landi til að forðast hrun.
Sagðist Sigríður ekki hafa getað hrist þær upplýsingar fram úr erminni á staðnum, en þeim hefði mátt fletta upp, og þetta væri til marks um það að dómararnir hefðu getað farið fram á að fá frekara efni ef þeim þótti eitthvað óskýrt í málflutningnum.