Klapparstígur stendur undir nafni

Klapparstígur frá Laugavegi.
Klapparstígur frá Laugavegi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Framkvæmdir við endurnýjun og fegrun á Klapparstíg ofan Laugavegar sem hafa staðið yfir frá aprílbyrjun ganga vel þrátt fyrir fleyga hafi þurft meira af klöpp undir götunni fyrir lögnum en áætlað var. Þegar farið var undir yfirborðið kom í ljós að Klapparstígur stendur vel undir nafni.

Í samræmi við áfangaskiptingu verksins hefur til þessa aðeins verið unnið á kaflanum frá Laugavegi upp að Grettisgötu. Nú í vikunni  hefst nýr áfangi þegar eldra yfirborð verður hreinsað af gatnamótum Grettisgötu og Klapparstígs. Við það breytast hjáleiðir vegna takmarkana á umferð um Grettisgötu og þar sem gatnamótin verða hvort sem er lokuð var ákveðið að heimila verktaka að hefja einnig vinnu í þessari viku við 3ja áfanga, sem er götukaflinn frá Grettisgötu upp að Njálsgötu. Það er tveimur vikum fyrr en áætlað var og skapar sú breyting á tímaáætlun svigrúm í slagnum við harða klöppina. Áfram er mikil áhersla lögð á að verklok verði innan settra tímamarka, segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Hagsmunaaðilar á svæðinu sem og lögregla og slökkvilið hafa fengið upplýsingar um þessar breytingar. Reykjavíkurborg biðst velvirðingar á truflunum sem af framkvæmdum stafar og biður vegfarendur jafnframt um að sýna aðgát og tillitsemi við vinnusvæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert