Nýtt skip Ísfélags Vestmannaeyja, Heimaey VE-1, sigldi í gegnum Panamaskurðinn í nótt að íslenskum tíma. Skipið var formlega afhent í Síle 17. apríl sl. og er væntanlegt til landsins um miðjan maí.
Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagins, segir í samtali við mbl.is að Heimaey hafi frá því á föstudagskvöld beðið í röð við skipaskurðinn. Umferð við skurðinn sé mikil og auk þess þurfi skipið að gangast undir ýmsar skoðanir.
Á öðrum tímanum í nótt komst skipið komst loks í gegn. „Núna er það bara beina leiðin heim,“ segir Eyþór.
Sjö manna íslensk áhöfn er um borð ásamt fulltrúa frá skipasmíðastöðinni ASMAR í Síle.
Eyþór segir að siglingin gangi vel. Á þessum slóðum sé hins vegar steikjandi hiti og það sé eina vandamálið sem áhöfnin glími við, ef vandamál skyldi kalla. Aðspurður segist Eyþór reikna með því að skipið verði komið á leiðarenda eftir um það bil hálfan mánuð, en það lagði úr höfn 19. apríl sl.
Heimaey VE-1 er af nýrri kynslóð uppsjávarskipa, er 71,1 metra langt og 14,4 metra breitt en burðargeta þess er rúmlega 2.000 tonn.