Guðni Einarsson
Meiri líkur fremur en minni eru á því að landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg, að mati Andra Árnasonar hrl. og verjanda Geirs.
Hann taldi bæði sjálfa málsmeðferðina og svo dóm landsdóms gefa tilefni til að fara með málið áfram og láta Mannréttindadómstólinn skoða hvort málsmeðferðin hafi verið í samræmi við viðurkennd sjónarmið í nútíma mannréttindaviðhorfum.
Andri kvaðst reikna með að endanleg ákvörðun um að vísa málinu áfram verði tekin á næstu vikum en hægt er að skjóta málum til Mannréttindadómstólsins í sex mánuði eftir uppkvaðningu dóms.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag telur Andri ýmislegt vera athugavert við málsmeðferðina og undirbúning málsins með tilliti til mannréttindasjónarmiða.