Um 24% hafa áhyggjur af fjármálum

mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Um 24% þeirra sem tóku þátt í könnun um fjármálalæsi höfðu áhyggjur af eigin fjármálum, þar af höfðu rúmlega 6% mjög miklar áhyggjur. Tæplega 39% þátttakenda höfðu ekki náð endum saman einhvern tíma á undanförnum 12 mánuðum.

Það var Stofnun um fjármálalæsi sem lét gera könnunina, en ítarlegur spurningalisti var lagður fyrir 852 Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára. Tekið var slembiúrtak úr Þjóðskrá. Gagnaöflun fór fram í gegnum síma dagana 2. til 16. desember 2011.

Um 45% þátttakenda sögðust alltaf íhuga það vandlega, áður en þau keyptu eitthvað, hvort þau hefðu efni á því. Einungis ríflega 3% sögðust aldrei íhuga það. Flestir, eða 76%, þátttakenda sögðust alltaf borga reikninga á réttum tíma.

Einungis rúmlega 20% þátttakenda sögðust alltaf setja sér langtíma fjárhagsleg markmið og 15% aldrei.

Ein af spurningunum sem lögð var fyrir þátttakendur var: „Hefur það gerst á undanförnum 12 mánuðum að endar náðu ekki saman?“. Hjá tæplega 39% þátttakenda höfðu endar ekki náð saman einhvern tíma á undanförnum 12 mánuðum en um 60% neita því. Þátttakendur á aldrinum 45 til 57 ára höfðu frekar lent í því að ná ekki endum saman heldur en aðrir, en 53% einstaklinga í þessum aldurshópi svöruðu spurningunni játandi.

Af öllum þátttakendum rannsóknarinnar höfðu rúmlega 15% lent í því að ná ekki endum saman fjórum sinnum eða oftar á síðastliðnum 12 mánuðum. Einhleypir virtust lenda oftar í því að meðaltali að enda nái ekki saman heldur en einstaklingar í sambúð og þá sérstaklega einhleypar konur. Þegar þátttakendur náðu ekki endum saman voru margir sem nýttu sér yfirdráttarheimild eða næstum 34% þátttakenda, um 11% tóku pening út af kreditkorti, 17% lentu í vanskilum með lán eða reikninga og um 25% þátttakenda drógu úr neyslu.

Einungis rúmlega 18% þátttakenda halda heimilisbókhald sjálfir. Þátttakendur á aldrinum 31 til 44 ára virtust frekar halda heimilisbókhald sjálfir heldur en aðrir.

Þegar spurt var um hvers konar sparnað og fjárfestingar þátttakendur höfðu nýtt sér á síðustu 12 mánuðum sögðust rúmlega 60% þátttakenda hafa lagt reglulega fyrir á bankareikningi, einnig sögðust tæplega 60% hafa lagt reglulega fyrir í séreignarlífeyrissjóð og naumlega 26% sögðust hafa geymt peninga á heimilinu.

Tæplega 30% þátttakenda höfðu nýtt sér yfirdráttarheimild hjá banka eða annarri fjármálastofnun á síðastliðnum mánuðum. Meðalupphæð yfirdráttar var 276.391 kr. Algengast var að yfirdrátturinn stæði í 200.000 kr.

Eignir voru hærri en skuldir hjá yfir 63% þátttakenda en hjá tæplega 19% þátttakenda voru skuldir hærri en eignir, þar af voru skuldir mun hærri en eignir hjá yfir 8% þátttakenda.

Meira en helmingur þátttakenda höfðu frekar eða mjög litlar áhyggjur af eigin fjármálum. Um 24% þátttakenda höfðu áhyggjur af eigin fjármálum, þar af höfðu rúmlega 6% mjög miklar áhyggjur.

Það var marktækur munur á áhyggjum þátttakenda af eigin fjármálum eftir aldri og menntun. Um 12% þátttakenda á aldrinum 45 til 57 ára mjög miklar áhyggjur af eigin fjármálum. Aftur á móti sögðust um 6% þátttakenda á aldrinum 31 til 44 ára og 58 til 80 ára hafa mjög miklar áhyggjur og einungis um 2% þátttakenda á aldrinum 18 til 30 ára.

Þátttakendur sem höfðu einungis lokið grunnskólaprófi og þátttakendur með framhaldspróf á háskólastigi höfðu frekar áhyggjur af eigin fjármálum heldur en þátttakendur sem lokið höfðu menntaskólaprófi eða háskólaprófi á grunnstigi.

Hjá tæplega 39% þátttakenda höfðu endar ekki náð saman einhvern …
Hjá tæplega 39% þátttakenda höfðu endar ekki náð saman einhvern tíma á undanförnum 12 mánuðum. mbl.is/Arnaldur Halldórsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert