Um 4.000 eru með lánsveð

Nokkuð algengt er að fasteignakaup séu fjármögnuð að hluta með …
Nokkuð algengt er að fasteignakaup séu fjármögnuð að hluta með láni þar sem veð var tekið í fasteign sem ekki var í eigu kaupanda. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Tæplega 4.000 skuldarar hafa fjármagnað fasteignakaup með lánsveði. Þar af eru tæplega 2.000 með yfir 110% veðsetningu miðað við fasteignamat.

Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur alþingismanns um stöðu einstaklinga með lánsveð.

Upplýsingar Þjóðskrár sýna að af um 100 þúsund kaupsamningum sem gerðir voru um íbúðarhúsnæði voru tæplega 10 þúsund kaup fjármögnuð að hluta með láni þar sem veð var tekið í fasteign sem ekki var í eigu kaupanda.

Samkeyrsla á gögnum frá lífeyrissjóðum (sjö stærstu sjóðunum) og ríkisskattstjóra leiddi hins vegar í ljós að 3.929 skuldarar notuðu lánsveðið til að fjármagna íbúðakaup en heildarfjöldi lánsveða til skoðunar var 6.746. Þessar tölur eru í ágætu samræmi við niðurstöður úr könnun Þjóðskrár Íslands fyrir ráðuneytið. Þannig liggur fyrir að margir lántakendur notuðu lánsveðin til að fjármagna annað en fasteignakaup.

1.955 heimili með meira en 110% veðsetningu miðað við fasteignamat. Af þeim voru 758 heimili með skuldir umfram 150%, 1.035 heimili voru með skuldir umfram 140%, 1.340 umfram 130% o.s.frv. Meiri en minni líkur eru á því að þeir sem eru með yfir 140% veðsetningu hafi verið með gengistryggð fasteignalán þar sem skuldarar ættu að jafnaði ekki að geta farið yfir 130% veðsetningu eignar.

Ef ætti að afskrifa það sem er umfram 110% veðsetningarhlutfall næmi heildarupphæðin um 11,3 milljörðum kr. og heildarfjárhæð lánsveða um 7,9 milljörðum. Það gæti því þurft að afskrifa að meðaltali um 10,7 milljónir kr. hjá hjónum/sambúðarfólki/einstæðu foreldri sem eru með skuldir umfram 110%.

Í svari ráðherra segir að ekki sé að svo stöddu hægt að afla ábyggilegra upplýsinga um stöðu lána þessa hóps á árinu 2011 en meiri líkur en minni eru á því að ákveðinn hluti hans hafi þegar fengið leiðréttingu vegna endurútreiknings gengistryggðra lána. Enn fremur er mögulegt að einhverjir í hópnum hafi þegar fengið niðurfellingu samkvæmt almennu reglunni um 110% leiðina á því láni sem hvílir á eign hlutaðeigandi. Getur það átt við í tilvikum þar sem áhvílandi lán á eigin fasteign var umfram 110% þannig að ekki reyndi á lánsveðið.

Þá þurfi að hafa í huga að ekki sé vitað hversu stór hluti hópsins á við verulegan greiðsluvanda að stríða samhliða skuldavandanum en það hefur áhrif á þá fjárhæð sem hugsanlega kæmi til afskrifta. Því er ekki hægt, að svo komnu máli, að svara hver yrði endanlegur kostnaður af því að flytja lánsveð á fasteign skuldara skv. 110% leiðinni.

Stærstu viðskiptabankarnir hafa fundið leiðir til að leysa úr málum vegna lánsveða ef lánsveðið er vegna láns í eigu bankans. Útfærsla á milli banka er þó mismunandi. Skuldarar hjá lífeyrissjóðunum sem hafa fengið lánsveð til tryggingar sé sá hópur sem átt hafi erfiðast með að nýta sér 110% úrræðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert