„Hér eru breytingar sem snúast um nöfn ráðuneyta og stofnun nýrra ráðuneyta og niðurlagningu annarra. En það er bara beinagrindin. Það vantar allt kjöt á beinin og málsmeðferðin í nefndinni skýrði það ekki nema að litlu leyti,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Á síðasta ári var samþykkt á Alþingi lög um fækkun ráðuneyta. Í upphaflegu frumvarpi var gerð tillaga um það ætti að vera í höndum forsætisráðherra að ákveða fjölda ráðuneyta og nöfn þeirra. Að kröfu stjórnarandstöðunnar var gerð sú breyting að áður en að breyting yrði gerð yrði Alþingi að staðfesta breytinguna í formi þingsályktunartillögu.
Slík tillaga er núna til umræðu í þinginu. Tillagan gerir ráð fyrir að ráðuneytunum verði fækkað í átta og verkaskiptingu milli þeirra verði breytt.
Birgir sagði að margt væri enn óljóst um verkaskiptingu milli ráðuneytanna. Þannig væri ekki fyllilega ljóst hvar einstakar stofnanir yrðu vistaðar. Það væri nauðsynlegt fyrir þingmenn að sjá heildarmyndina áður en þeir tækju afstöðu til málsins.
„Það kom jafnvel skýrar fram en ella í yfirferð nefndarinnar hversu margir þræðir eru lausir í þessu máli. Það var undirstrikað má segja með fundum nefndarinnar að þau atriði sem lúta að verkaskiptingu ráðuneyta, hvar stofnanir eru vistaðar og svo framvegis, það ert allt saman mjög óljóst enn þá. Að mínu mati ... hefði verið eðlilegt að þeir þættir væru undir í þessu máli þannig að þegar þingmenn taka afstöðu til þessa máls ættu þá kost á því að leggja mat á það hvaða afleiðingar breytingarnar hafa,“ sagði Birgir.
Í áliti minnihlutans segir að vinna þurfi tillögur um ráðuneytabreytingar mun betur og útfæra þær með ítarlegri hætti áður en þær verða afgreiddar á Alþingi. „Minni hlutinn leggst því gegn því að þessi tillaga nái fram að ganga. Skipulag stjórnarráðsins og fyrirkomulag ráðuneyta er vissulega þess eðlis að rétt er og skylt að endurskoða hana með reglulegu millibili. Til þess þarf hins vegar að koma betri stefnumörkun og skýrari sýn en birtist í þessari tillögu. Jafnframt er mikilvægt að leitað sé sem víðtækastrar samstöðu um fyrirkomulag þessara mála, þannig að það þurfi ekki að vera meðal fyrstu verka hverrar ríkisstjórnar að breyta fyrirkomulagi ráðuneyta í landinu. Tíðar breytingar í þessum efnum draga úr festu og fyrirsjáanleika í stjórnsýslunni og valda vandkvæðum, bæði fyrir þá sem starfa innan stjórnarráðsins og alla þá sem samskipti þurfa að eiga við það, hvort sem um er að ræða stofnanir, hagsmunaaðila eða einstaklinga.“