Vill fresta útgreiðslu styrkja vegna Evrópumála

Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður.
Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður.

„Það var varla ætlan utanríkismálanefndar með tillögum um styrki til frjálsra félagasamtaka að þeir færu í að greiða ferða kostnað og uppihald og laun til einstaklinga sem reka fyrirtæki á sviði upplýsingatækni, hvað þá yfirvigt viðkomandi á ferðalögum,“ sagði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag og ræddi þar um fræðslustyrk Alþingis um Evrópusambandið sem úthlutað var fyrst síðastliðið haust og rann að hluta til til vefsíðunnar Evrópuvaktin.is.

Álfheiður sagði að vilji hefði verið fyrir því að endurskoða reglur um úthlutun slíkra styrkja en að forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefði ákveðið að fresta þeirri vinnu sem þýddi að fyrirhuguð önnur úthlutun slíks styrks, í heildina upp á um 20 milljónir króna, yrði í samræmi við sömu reglur og stuðst var við síðastliðið haust. Sagðist hún því vilja hvetja Ástu til þess að fresta því að greiða út styrkinn nú þar til búið væri „að setja betri betri og skilvirkari reglur um úthlutun um styrkþegana og um ráðstöfun þeirra á fé skattborgaranna.“

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, brást við ræðu Álfheiðar og sagði að það yrði mjög ánægjulegt ef hún myndi „beita sér af sömu hörku gegn þeim hundruðum milljóna sem Evrópusambandið sjálft er að verja hér til áróðurs og kynningarstarfs. Og það hefði nú einhvern tímann heyrst eitthvað í vinstri-grænum ef að þeir væru í annarri stöðu heldur en nú er gagnvart þeim styrkjum sem renna hér óheftir til landsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert