„Ég lýsti því yfir á fundinum að þetta væri alvarlegasta milliríkjadeila sem við hefðum átt í síðan við lok þorskastríðanna,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem ræddi makríldeiluna á fundi með fulltrúum úr sjávarútvegsnefnd Evrópusambandsins.
Nefndin átti í dag fund með atvinnuveganefnd Alþingis. Á fundinum voru aðallega tvö mál til umræðu, endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB og makríldeilan.
Einar sagði að það hefði komið greinilega fram á fundinum að það væri ágreiningur í nefndinni um grundvallaratriði í sambandi við endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB. Ennfremur kom fram að vinna nefndarinnar muni ekki ljúka fyrr en í lok þessa árs og þá ætti málið eftir að fara inn í þingið.
„Mér fannst þetta athyglisvert vegna þess að menn hafa verið að segja öðrum þræði að viðræður okkar við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál séu á einhvern hátt háðar þessari endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar. Það er að mínu mati í algjörri óvissu hvenær þeirri vinnu lýkur,“ sagði Einar.
Á fundinum kom makríldeilan einnig til umræðu. Engin lausn er í sjónmáli í deilunni, en ESB og Noregur standa saman og hafna algerlega sjónarmiðum Íslands og Færeyja í málinu.
„Ég sagði á fundinum að ástæða fyrir þessari deilu við Evrópusambandið og Noreg um makrílinn væri í því fólgin að þeir tækju til sín með freklegum hætti 90% af því sem talið væri ráðlegt aflamark. Þetta væri uppspretta ágreinings en ekki að við værum með einhverjum hætti að ganga illa um auðlindina.“