Hæstiréttur hefur sýknað Viðar Má Matthíasson, hæstaréttardómara, af kröfum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Málið er sérstakt fyrir þær sakir að allir hæstaréttardómarar voru í því vanhæfir.
Lánasjóður íslenskra námsmanna stefndi Viðari Má fyrir dóm vegna ábyrgðar á námsláni sem hann gekkst í árið 1985.
Málið snerist um túlkun á lögum um námslán, en á sínum tíma var þess krafist að lánþegi þyrfti tvo ábyrgðarmenn fyrir námsláni og samkvæmt reglum sem voru í gildi árið 1985, þegar lánið var tekið, var hámarkstími endurgreiðslu lánanna 20 ár.
Viðar Már taldi að skyldur hans sem ábyrgðarmanns hefðu fallið niður árið 2005, en þessu var stjórn Lánasjóðsins ekki sammála. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á rök Viðars Más og sýknaði hann af kröfum LÍN 2. nóvember sl. og í dag staðfesti Hæstiréttur niðurstöðuna.
Í lögum um dómstóla er gert ráð fyrir að þessi staða geti komið upp en í 2. mgr. 8. gr. segir: „Séu allir hæstaréttardómarar vanhæfir til að skipa dóm í máli skal forseti gera tillögu til [innanríkisráðherra] um einn varadómara til að sitja þar í forsæti. Þegar slíkur varadómari hefur verið skipaður gerir hann tillögu til ráðherra um skipan dómsins að öðru leyti.“
Forseti Hæstaréttar er Markús Sigurbjörnsson og gerði hann tillögu til innanríkisráðherra um að Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og formaður dómstólaráðs, sæti í forsæti. Símon gerði svo tillögu um að með honum í málinu skyldu dæma Sigurður Tómas Magnússon prófessor og Skarphéðinn Þórisson, fyrrverandi ríkislögmaður.
Þetta voru því dómararnir sem dæmdu í málinu.