Seðlabanki Íslands hefur hafnað beiðni um að birt verði afrit af símtali Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, sem þeir áttu í byrjun október 2008.
Það voru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, og Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sem fóru skriflega fram á að fá útskrift af símtalinu.
Þetta símtal snerist um lán að fjárhæð 500 milljónir evra sem veitt var til Kaupþings 6. október 2008, gegn veði í öllum hlutabréfum í danska FIH-bankanum.
Í svari Seðlabankans segir að samkvæmt lögum um Seðlabankann hvíli þagnarskylda á bankaráðsmönnum, seðlabankastjóra og öðrum starfsmönnum bankans um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, málefni bankans sjálfs, svo og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu.
Í bréfinu segir að samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis skuli stjórnvald veita þingnefndum aðgang að gögnum ef a.m.k. fjórðungur nefndarmanna fer fram á upplýsingar út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar. Í bréfinu segir að ekki liggi fyrir að fjórðungur nefndarmanna í þingnefndunum standi að þessari beiðni og eins liggi ekki fyrir hvaða mál nefndirnar séu með til umfjöllunar sem tengist þessari gagnaöflun. Því er þessu erindi hafnað.