Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að til að hægt sé að semja um þingstörfin verði hún að fá svör frá stjórnarandstöðunni um hvenær hægt verði að klára umræðu um breytingar á stjórnarráðinu.
Jóhanna sagði í kvöld að það væri ekki hægt að semja við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins. „Háttvirtur þingmaður hefur hagað sér þannig í gegnum þingstörfin að það er ekki hægt að semja við háttvirtan þingmann. Hún vill helst hafa dagskrárvaldið sjálf í sínum höndum þó að hún sé í stjórnarandstöðu,“ sagði Jóhanna í andsvari við ræðu Ragnheiðar Elínar.
Jóhanna sagði að í dag hefði verið gerð tilraun til að semja um að önnur mál kæmust á dagskrá en um leið yrði samið um hvenær umræðu um breytingar á stjórnarráðinu lyki. „Það er ekki hægt að fá svör við því frá háttvirtum þingmanni vegna þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og að hluta til Framsóknarflokksins eru staðráðnir í því að ýta til hliðar þessu máli þannig að það verði ekki að lögum, sem og stjórnarskrármálinu sem 2/3 hlutar þjóðarinnar er kalla eftir að verði klárað hér í þinginu.“
Jóhanna rifjaði upp að þegar fyrrverandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp um breytingar á stjórnarráðinu fyrir 5-6 árum hefði umræða við það mál verið kláruð í þinginu á um þremur klukkutímum.
Ragnheiður Elín furðaði sig á þessum orðum og sagði að stjórnarandstaðan hefði lagt til að þetta ágreiningsmál yrði lagt til hliðar og þingið snéri sér að því að ræða önnur mál. Þetta væri ekki ósanngjörn krafa. Það stæði ekki á stjórnarandstöðunni að semja um afgreiðslu þingmála. Ragnheiður Elín hafnaði orðum Jóhönnu um að stjórnarandstaðan væri að tefja afgreiðslu mála á þingi. Það tæki miklu lengri tíma fyrir Jóhönnu að semja um afgreiðslu mála við þingmenn í stjórnarliðinu en við stjórnarandstöðuna.
Jóhanna sagði að stjórnarandstaðan væri að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu mála sem væri þingmeirihluti fyrir. Ragnheiður Elín sagðist efast um að það væri þingmeirihluti fyrir öllum þeim málum sem ríkisstjórnin væri að reyna að koma í gegn.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, rifjaði upp að Jóhanna hefði þegar hún var í stjórnarandstöðu flutt 11 tíma langa ræðu. Það færi henni illa að vera skamma aðra fyrir að tefja þingstörf með því að flytja langar ræður.
Enn eru um 10 þingmenn á mælendaskrá í umræðum um breytingar á stjórnarráðinu.