Nýju framboðin fá samtals tíu þingmenn ef úrslit þingkosninga verða í samræmi við nýjustu könnun Gallup. Valkostum Sjálfstæðismanna til myndun tveggja flokka stjórnar fækkar töluvert frá fyrri könnun. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Nokkrar breytingar hafa orðið á hvernig þingmenn raðast innan flokka frá síðustu könnun Gallup fyrir mánuði. Framsóknarflokkurinn fengi níu þingmenn, sama og síðast. Sjálfstæðisflokkurinn fengi tuttugu og fimm menn, þremur minna en fyrir mánuði. Samfylkingin heldur sínum tólf mönnum en Vinstri grænir tapa einum manni, fá sjö menn. Samstaða, sem fékk sex menn í síðustu könnun fær fjóra nú, en Dögun og Björt framtíð fengju þrjá þingmenn hvor. Nýju framboðin fengju því samtals tíu þingmenn ef kosið yrði nú, en þess ber að geta að Hreyfingin, sem hefur nú þrjá þingmenn, er hluti af Dögun.
Miðað við fylgið fyrir mánuði gat Sjálfstæðisflokkurinn myndað tveggja flokka ríkisstjórn með hverjum hinna flokkanna sem var. Sú staða er nú breytt því ef þetta verður niðurstaðan verða aðeins tveir möguleikar á myndun tveggja flokkar stjórnar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem hefði þrjátíu og sjö þingmenn á bak við sig, og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hefði þrjátíu og fjóra þingmenn, segir í frétt RÚV.