Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði gagnrýndu meirihlutann í borgarstjórn á borgarráðsfundi í dag fyrir að Reykjavíkurborg hefði ekki skilað inn umsögn vegna frumvarps að lögum um veiðigjöld. Frumvarpið var sent borginni til umsagnar frá Alþingi fyrir rúmum mánuði, en sú beiðni þingsins var aldrei kynnt borgarráði og engin umsögn um þetta stóra hagsmunamál því farið frá stærsta sveitarfélagi landsins. Frestur til að skila inn umsögnum til Alþingis er liðinn, en að beiðni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins verður málið tekið upp aftur á næsta fundi borgarráðs.
„Auðvitað er ólíðandi að meirihluti Samfylkingar og Besta flokks skuli sitja á slíkri beiðni frá Alþingi enda er hér um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir borgarbúa og fyrirtæki í greininni,“ er haft eftir Júlíusi Vífli Ingvarssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, í tilkynningu frá borgarstjórnarflokknum.
„Annaðhvort vita borgarfulltrúar meirihlutans ekki að í borginni eru starfrækt þrjú stór útgerðarfyrirtæki og eitt af þeim er stærsta útgerðarfyrirtæki landsins eða þeir hafa ákveðið að láta hollustu við stjórnarflokkana ganga fyrir hagsmunum borgarbúa. Um fimmtungur alls afla á landinu kemur í land í Reykjavík og þúsundir borgarbúa hafa af því atvinnu að starfa við vinnslu eða veiðar. Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokks hafa lagt fram atvinnustefnu sína í löngu máli en þegar standa á vörð um atvinnulíf í borginni falla þeir á prófinu,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson.
Í tillögu sem sjálfstæðismenn lögðu fram í borgarráði í dag er bent á að frá 20 öðrum sveitarfélögum, sumum fámennum í samanburði við Reykjavík, hafi borist svör og eru þau öll á einn veg. 91 umsögn hefur þegar borist Alþingi og um síðustu helgi bárust fréttir af því að á annað hundrað sveitarstjórnarmenn hvaðanæva af landinu hefðu skrifað undir mótmælaskjal. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks minna á að það er ekki á valdi meirihluta Samfylkingar og Besta flokks að ákveða að samþykkja stjórnarfrumvarp þetta með þögninni.
Lagt er til að frumvarp til laga um veiðigjöld verði kynnt borgarráðsfulltrúum á næsta fundi borgarráðs ásamt tillögu að umsögn borgarinnar. Farið verði yfir áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, á útgerðarfyrirtæki og atvinnulíf í borginni.