Verið er að athuga möguleika barnaverndaryfirvalda til að vista fimmtán ára ungling sem dæmdur hefur verið til fangelsisvistar fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins. Forstjóri Barnaverndarstofu telur ekki viðunandi að setja svo ungt barn í fangelsi.
Sérstakar verklagsreglur gilda um meðferð mála ungmenna undir 18 ára aldri, sem hingað koma án forsjármanna, eru stöðvuð með fölsuð skilríki eða biðjast hælis hér á landi. Hefur slíkum málum mjög fjölgað að undanförnu.
Tveir karlmenn sem taldir eru vera frá Norður-Afríku voru stöðvaðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir helgi þegar þeir framvísuðu fölsuðum vegabréfum. Annar er talinn vera um 15 ára og hinn 16-17 ára, en eftir er að kanna nánar aldur og aðstæður þeirra. Þeir voru dæmdir til fimmtán daga fangelsisvistar fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Ungmennin eru í vörslu lögreglu.