Fréttaskýring: Telur stjórnsýslu Íslands of litla

mbl.is/Hjörtur

Meðal þess sem fram hef­ur komið í umræðum um fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar á ráðuneyt­is­skip­an er sú skoðun að þær teng­ist um­sókn stjórn­valda um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið. Það sjón­ar­mið hef­ur meðal ann­ars heyrst í röðum þing­manna og nú síðast hjá Jóni Bjarna­syni, þing­manni Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs og fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, í sam­tali við Morg­un­blaðið í dag. Þessu hafa for­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar hins veg­ar neitað.

„Evr­ópu­sam­bandið hef­ur kraf­ist þess að Ísland geti sýnt fram á stjórn­sýslu­lega getu til þess að taka að sér þær skuld­bind­ing­ar sem einkum fel­ast í yf­ir­töku á reglu­verki þeirra í land­búnaði og byggðamál­um frá fyrsta degi aðild­ar,“ seg­ir Jón í sam­tali við blaðið og bæt­ir því við að með því að sam­eina ráðuneyti og búa til eitt at­vinnu­vegaráðuneyti megi segja að verið sé að bregðast við kröf­um Evr­ópu­sam­bands­ins um aðlög­un að sam­band­inu.

Meðal ann­ars hef­ur í því sam­bandi verið vísað til álykt­un­ar Evr­ópuþings­ins um aðild­ar­um­sókn Íslands frá því fyrr á þessu ári (end­an­leg út­gáfa dag­sett 15. mars síðastliðinn) þar sem sam­ein­ingu ráðuneyta hér á landi er fagnað en í álykt­un­inni seg­ir: „Evr­ópuþingið [...] fagn­ar yf­ir­stand­andi sam­ein­ingu ráðuneyta, viður­kenn­ir skil­virkni og fag­mennsku ís­lensku stjórn­sýsl­unn­ar og styður heild­ar­mark­miðið um að auka stjórn­sýslu- og sam­ræm­ing­ar­getu ís­lenskra ráðuneyta.“

Stjórn­sýsl­an veik­ari eft­ir banka­hrunið

Víðar er skír­skotað til ís­lenskra ráðuneyta og stjórn­sýslu Íslands al­mennt í gögn­um Evr­ópu­sam­bands­ins um um­sókn lands­ins. Í svo­kallaðri fjölærri heild­aráætl­un sam­bands­ins dag­settri 8. apríl 2011, sem ligg­ur til grund­vall­ar svo­nefndri IPA-aðstoð þess við Ísland, seg­ir til að mynda að mark­miðið með aðstoðinni sé að styrkja stjórn­sýslu­lega getu ís­lenskra ráðuneyta og annarra op­in­berra stofn­ana hér á landi til þess að geta tek­ist á við heild­ar­lög­gjöf sam­bands­ins.

„Á heild­ina litið er stjórn­sýsla hins op­in­bera [á Íslandi] lít­il og með tak­markaðar fjár­veit­ing­ar. Mik­ill niður­skurður hef­ur enn­frem­ur átt sér stað í op­in­ber­um út­gjöld­um með það fyr­ir aug­um að kom­ast út úr efna­hagserfiðleik­un­um í kjöl­far hruns­ins árið 2008. Niður­skurður­inn set­ur frek­ari skorður við getu Íslands til und­ir­bún­ings fyr­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið ofan á op­in­bera stjórn­sýslu sem er þegar tak­mörkuð að stærð,“ seg­ir í áætl­un­inni.

Tals­verð áhersla er lögð á smæð ís­lenskra ráðuneyta að mati Evr­ópu­sam­bands­ins í fjölæru heild­aráætl­un­inni og rætt um starfs­manna­fjölda inn­an þeirra í því sam­bandi sem og verksvið þeirra. Þá er einnig talað um að stjórn­sýsl­an sem slík hér á landi sé fá­menn. Í gögn­um Evr­ópu­sam­bands­ins er enn­frem­ur rætt um mik­il­vægi þess að upp­bygg­ingu stjórn­sýslu­legr­ar getu á Íslandi til þess að tak­ast á við inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið sé haldið áfram.

Virðist telja um tengsl að ræða

Hvort sem fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar á ráðuneyt­is­skip­an á Íslandi og fyrri breyt­ing­ar í þeim efn­um tengj­ast um­sókn ís­lenskra stjórn­valda um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið eða ekki verður í það minnsta ekki annað séð en að sam­bandið sjálft telji svo vera. Að sama skapi er ljóst að fyr­ir­ætlan­ir rík­is­stjórn­ar­inn­ar koma heim og sam­an við hug­mynd­ir Evr­ópu­sam­bands­ins.

Þá er ljóst að gengi Ísland í Evr­ópu­sam­bandið þyrfti að auka mjög um­fang stjórn­sýsl­unn­ar hér á landi til þess að hún yrði í stakk búin til þess að fram­fylgja allri lög­gjöf sam­bands­ins þegar inn væri komið.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert