Meðal þess sem fram hefur komið í umræðum um fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á ráðuneytisskipan er sú skoðun að þær tengist umsókn stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið. Það sjónarmið hefur meðal annars heyrst í röðum þingmanna og nú síðast hjá Jóni Bjarnasyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við Morgunblaðið í dag. Þessu hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar hins vegar neitað.
„Evrópusambandið hefur krafist þess að Ísland geti sýnt fram á stjórnsýslulega getu til þess að taka að sér þær skuldbindingar sem einkum felast í yfirtöku á regluverki þeirra í landbúnaði og byggðamálum frá fyrsta degi aðildar,“ segir Jón í samtali við blaðið og bætir því við að með því að sameina ráðuneyti og búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti megi segja að verið sé að bregðast við kröfum Evrópusambandsins um aðlögun að sambandinu.
Meðal annars hefur í því sambandi verið vísað til ályktunar Evrópuþingsins um aðildarumsókn Íslands frá því fyrr á þessu ári (endanleg útgáfa dagsett 15. mars síðastliðinn) þar sem sameiningu ráðuneyta hér á landi er fagnað en í ályktuninni segir: „Evrópuþingið [...] fagnar yfirstandandi sameiningu ráðuneyta, viðurkennir skilvirkni og fagmennsku íslensku stjórnsýslunnar og styður heildarmarkmiðið um að auka stjórnsýslu- og samræmingargetu íslenskra ráðuneyta.“
Stjórnsýslan veikari eftir bankahrunið
Víðar er skírskotað til íslenskra ráðuneyta og stjórnsýslu Íslands almennt í gögnum Evrópusambandsins um umsókn landsins. Í svokallaðri fjölærri heildaráætlun sambandsins dagsettri 8. apríl 2011, sem liggur til grundvallar svonefndri IPA-aðstoð þess við Ísland, segir til að mynda að markmiðið með aðstoðinni sé að styrkja stjórnsýslulega getu íslenskra ráðuneyta og annarra opinberra stofnana hér á landi til þess að geta tekist á við heildarlöggjöf sambandsins.
„Á heildina litið er stjórnsýsla hins opinbera [á Íslandi] lítil og með takmarkaðar fjárveitingar. Mikill niðurskurður hefur ennfremur átt sér stað í opinberum útgjöldum með það fyrir augum að komast út úr efnahagserfiðleikunum í kjölfar hrunsins árið 2008. Niðurskurðurinn setur frekari skorður við getu Íslands til undirbúnings fyrir inngöngu í Evrópusambandið ofan á opinbera stjórnsýslu sem er þegar takmörkuð að stærð,“ segir í áætluninni.
Talsverð áhersla er lögð á smæð íslenskra ráðuneyta að mati Evrópusambandsins í fjölæru heildaráætluninni og rætt um starfsmannafjölda innan þeirra í því sambandi sem og verksvið þeirra. Þá er einnig talað um að stjórnsýslan sem slík hér á landi sé fámenn. Í gögnum Evrópusambandsins er ennfremur rætt um mikilvægi þess að uppbyggingu stjórnsýslulegrar getu á Íslandi til þess að takast á við inngöngu í Evrópusambandið sé haldið áfram.
Virðist telja um tengsl að ræða
Hvort sem fyrirhugaðar breytingar á ráðuneytisskipan á Íslandi og fyrri breytingar í þeim efnum tengjast umsókn íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið eða ekki verður í það minnsta ekki annað séð en að sambandið sjálft telji svo vera. Að sama skapi er ljóst að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar koma heim og saman við hugmyndir Evrópusambandsins.
Þá er ljóst að gengi Ísland í Evrópusambandið þyrfti að auka mjög umfang stjórnsýslunnar hér á landi til þess að hún yrði í stakk búin til þess að framfylgja allri löggjöf sambandsins þegar inn væri komið.