Ekki haft samráð við þingflokksformenn

Björn Valur Gíslason, alþingismaður.
Björn Valur Gíslason, alþingismaður.

Ekkert samráð var við þingflokksformenn um breytingar á dagskrá Alþingis í dag að sögn Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Í það minnsta hefði hann ekki átt aðild að neinu slíku samkomulagi.

Hann lét þessi ummæli falla í ræðustól þingsins eftir hádegi en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag ákvað forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, að breyta dagskránni þannig að fresta umræðu um breytingar á stjórnarráðinu og taka þess í stað til umræðu minna umdeild mál sem upphaflega stóð til að ræða á eftir stjórnarráðsmálinu.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fögnuðu ákvörðun forseta Alþingis og sögðust munu leggja sitt að mörkum til þess að umræður um minna umdeildu málin gengju vel fyrir sig og þau kæmust til nefnda eftir helgi.

Ýmsir stjórnarþingmenn höfðu fyrr í vikunni sakað þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fyrir að koma í veg fyrir að minna umdeild mál væru rædd með því að draga á langinn umræðu um stjórnarráðsmálið.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemd við ummæli Björns Vals og benti á að samkvæmt lögum væri það forseti Alþingis sem ákveddi dagskrá þingsins en ekki þingflokksformenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert