Heilsulind á Húsavíkurhöfða

Tölvuteikning af því hvernig heilsuböðin gætu litið út.
Tölvuteikning af því hvernig heilsuböðin gætu litið út.

Hugmyndir eru uppi um uppbyggingu og rekstur heilsulindar á Húsavíkurhöfða þar sem efnaríkt saltvatn úr jörðu verður nýtt til heilsubótar fyrir heimamenn og gesti.

Myndi baðstaðurinn rísa norðan við bæinn, efst á höfðanum þar sem útsýni er vítt yfir flóann og Kinnarfjöll. Það er félagið Sjóböð ehf. sem að fer fyrir verkefninu en að því standa Norðursigling og fjárfestingasjóðurinn Tækifæri auk Orkuveitu Húsavíkur og fleiri aðila.

„Við sjáum fyrir okkur að starfsemi sem þessi myndi styðja vel við Húsavík sem viðkomustað ferðamanna,“ segir Björn Gíslason, stjórnarformaður Sjóbaða ehf. „Þrátt fyrir að mikill fjöldi fólks leggi leið sína til Húsavíkur og þá einkum í hvalaskoðun, sýna tölur að tiltölulega lágt hlutfall gesta hefur þar næturstað. Með sjóböðunum gæti komið til staður sem að styrkti svæðið sem viðkomustað þannig að fólk staldraði jafnvel lengur við og önnur ferðaþjónusta nyti góðs af.“

Undirbúningur sjóbaðanna hefur staðið yfir um hríð og mikil undirbúningsvinna þegar innt af hendi. Veltur endanleg niðurstaða um hvort ráðist verður í verkefnið nú einkum á skipulagsmálum þ.e. ákvörðun um lagningu vega um höfðann. Á meðan beðið er ákvörðunar bæjaryfirvalda bíða menn rólegir og nýta tímann til annarra verka, verður sumarið m.a. nýtt til frekari rannsókna á gæðum vatnsins og vatnsrennslis á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert