Íslenskt efnahagslíf er á merkilega góðu róli miðað við það sem á undan er gengið og í einu úthverfa Reykjavíkur reiknar bílasali með að selja tíu sinnum fleiri bíla á þessu ári en 2009. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Reuters en þar er einnig rætt við geðlækni sem segir Íslendinga í þunglyndi.
Það er blaðakonan Mia Shanley sem sótti Ísland heim og ræddi við mann og annan. Umfjöllun hennar um hinn efnahagslega viðsnúning er í takt við margar erlendar fréttaskýringar um að atvinnuleysi sé hér miklu lægra en víða í Evrópu, að jöfnuður sé að komast á í ríkisfjármálum og að útflutningsgreinar séu í blóma vegna hagstæðs gengis.
Það er hins vegar ekki sá hluti greinarinnar sem hvað mesta athygli vekur.
Meðal þeirra sem urðu á vegi hennar er þannig Páll Matthíasson, geðlæknir og framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, sem sýndi Shanley fimm stig sorgarferlisins á iPad-tölvu sinni.
Er haft eftir Páli að Íslendingar séu nú á þunglyndisstiginu.
„Þeir deila sameiginlegri sektarkennd vegna þess að aðeins er hægt að beina hluta reiðinnar að bankamönnunum. Það er eins og að horfa í spegil og spyrja: „Gerði ég þetta?“ Spurningin vaknar aftur og aftur ásækir okkur,“ segir Páll svo tilvitnunin sé lauslega þýdd á íslensku.
Fimm þrep sorgarinnar
Sorgarferillinn sem Páll vísar til er oft túlkaður í fimm þrepum sem eru kennd við fræðimennina Kübler og Ross.
Fyrsta skrefið er afneitun. Annað skrefið er reiði. Þriðja skrefið er málamiðlun. Það fjórða þunglyndi og það fimmta og síðasta samþykki.
Samkvæmt greiningu Páls eru Íslendingar á fjórða stiginu nú þegar hálft fjórða ár er liðið síðan þrír stærstu bankar landsins hrundu til grunna og þúsundir einstaklinga urðu fyrir miklum búsifjum vegna hruns á hlutabréfamarkaði, svo ekki minnst á gengishrun og aðrar afleiðingar hamfaranna.