„Hvenær ætlar forseti að taka á því vandamáli sem nú er uppi í þinginu að sumir megi vísa í nefndarmenn, sumir megi vísa í bréf. Hvar er trúnaðurinn frú forseti í nefndum þingsins. Nær hann bara yfir þá sem hér stendur og stjórnarandstöðuna og spilar ríkisstjórnin frítt spil í þessu?“ spurði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í morgun.
Hún var þar að bregðast við upplestri Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á bréfi sem barst forsætisnefnd Alþingis frá Björgu Evu Erlendsdóttur þar sem hún kvartaði undan ummælum Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um sig úr ræðustól Alþingis.
Vigdís var ávítt fyrr á árinu fyrir að tjá sig um umfjöllunarefni á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á Facebook-síðu sinni og sökuð um að hafa þar vitnað í einstakling sem kom sem gestur á fundinn en slíkt er ekki heimilt samkvæmt lögum um þingsköp.
Hún rifjaði þetta upp í ræðu sinni og ítrekaði að hún hefði engan nefnt á nafn og aðeins verið að lýsa eigin upplifun af fundinum. Það hefði hins vegar verið Álfheiður sem hefði á sínum tíma kvartað undan henni í þeim efnum.
Þessi orðaskipti urðu í tengslum við mikla umræðu sem skapaðist um það hvernig væri við hæfi að skírskota til fjarstaddra einstaklinga úr ræðustól Alþingis sem hófst með því að Sigurður Ingi var gagnrýndur fyrir ummæli um Þórólf Matthíasson, prófessor við Háskóla Íslands.
„Það er ólíðandi finnst mér að þessi ræðustóll skuli notaður í því skyni að grafa undan skoðanafrelsi fræðimanna og sjálfstæði þeirra til þess að setja fram opinberar skoðanir,“ sagði Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars.
Inn í umræðuna spiluðu einnig vangaveltur um það hvenær fræðimenn væru stjórnmálamenn og hvenær stjórnmálamenn mættu tjá sig sem fræðimenn. Sagði Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, meðal annars að beiðni erlends fræðimanns um að hún stjórnaði fundi í Háskóla Íslands hefði verið hafnað á þeim forsendum að hún væri of pólitísk.