Fréttaskýring: Vandi verkalýðshreyfingarinnar

Morgunblaðið/Kristinn

Í ræðu sinni á útifundi á Ísafirði hinn 1. maí sl. kastaði Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Eflingar Iðju á Akureyri, fram þeirri fullyrðingu að vandi verkalýðshreyfingarinnar í dag fælist í því að innan hennar væri fólk sem væri tilbúið til þess að rægja og deila á samstarfsaðila sína jafnvel frekar en á atvinnurekendur.

Ummæli Björns eru athyglisverð, einkum í ljósi þess að í fyrra voru þónokkur átök innan SGS en hinn 10. maí næstkomandi verður haldið framhaldsþing SGS og er stefnt að því að þar verði samþykktar töluverðar breytingar á skipulagi þess.

„Þessi ummæli, hjá formanni Starfsgreinasambands Íslands, vekja að sjálfsögðu athygli, en hann þá væntanlega skuldar mönnum í sjálfu sér skýringar á hvað hann eigi við og ég treysti honum til þess að koma fram með það hvað hann eigi við með þessum orðum,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. Að sögn Aðalsteins eru skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar um ýmsa hluti og nefnir hann sem dæmi aðild að ESB, fiskveiðistjórnunarkerfið og þá launa- og kjarastefnu sem verkalýðshreyfingin eigi að viðhafa á hverjum tíma.

„Til dæmis í síðustu samningum var ég einn af þeim sem voru talsmenn þess að fiskvinnslufólk fengi verulegar launahækkanir vegna þess að ég sá fyrir mér að það væri góð innistæða fyrir því,“ segir Aðalsteinn og bætir við: „En ég þurfti í rauninni að takast á við nokkra af mínum félögum innan verkalýðshreyfingarinnar sem sáu þetta ekki í sama ljósi og ég og töldu að það ætti ekkert að hækka laun fiskvinnslufólks meira en annarra launþega.“

Hann segir það eðlilegt að skoðanaskipti eigi sér stað á milli manna í stórum fjöldahreyfingum á borð við SGS og ASÍ. „Það er ósköp eðlilegt að það séu skoðanaskipti,“ segir Aðalsteinn og tekur einnig fram að menn megi ekki líta á það sem árás þó svo að aðrir séu ekki á sömu skoðun.

„Nei, alls ekki, mér vitanlega,“ segir Ásgerður Pálsdóttir, formaður stéttarfélagsins Samstöðu, aðspurð hvort búast megi við átökum á framhaldsþingi SGS í ljósi ummæla Björns. Líkt og áður kom fram voru mikil átök innan SGS í fyrra en Ásgerður segist ekki vita betur en búið sé að gera upp öll þau mál.

Skoðanaskipti mikilvæg

„Ég veit svosem ekki við hverja hann á, hann verður að svara því,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, spurður út í sitt álit á ummælum Björns og bætir við: „En ég skal alveg viðurkenna það að ég hef svosem haldið uppi töluverðri gagnrýni á hreyfinguna og held að það sé mjög mikilvægt að menn séu ekki þannig steyptir í sama mót að það megi ekki nema ein skoðun heyrast.“ Að sögn Vilhjálms er ómögulegt að segja til um það hvort þær breytingar sem stefnt er að því að leggja fram á framhaldsþinginu nái fram að ganga en hann telur þó meiri líkur en minni á að svo verði.

Björn Snæbjörnsson vildi í samtali við Morgunblaðið 1. maí sl. ekki útskýra nánar hvað hann ætti við með þessum ummælum sínum. Áreiðanlegar heimildir herma að megn óánægja sé innan SGS með bæði ummæli Björns sem og tímasetningu þeirra, því er ljóst að áhugavert verður að fylgjast með framhaldsþingi SGS.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert