„Mér finnst að ráðherrann eigi að lýsa yfir því að hann hafi gert mistök með því að leggja málið svona fram,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í morgun um frumvörp ríkisstjórnarinnar að breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi. Hann sagði að frumvörpin hefðu verið lögð fram á kolröngum forsendum, meðal annars með tilliti til útreikninga á auðlindarentu, og að skautað væri létt fram hjá því að bera ábyrgð á málinu.
Orðum sínum beindi Bjarni til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Lýsti hann furðu sinni á því að ráðherrann hefði lagt fram frumvörp á Alþingi sem þýddu að stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja myndu hreinlega ekki lifa af. Slíkar væru álögurnar sem gert væri ráð fyrir að útgerðin stæði undir samkvæmt þeim. „Ég hygg að það geti ekki hafa nokkru sinni gerst að ráðherra greinarinnar hafi lagt fram frumvarp sem setur stóran hlut fyrirtækjanna sem starfa í greininni einfaldlega í gjaldþrot,“ sagði Bjarni.
Steingrímur vísaði því á bug að um mistök hefði verið að ræða með því að leggja frumvörpin fram. Þá teldi hann að aðferðafræðin við útreikninga á veiðileyfagjaldi væri rétt.
„Greiningin hins vegar á þoli hennar í dag til að greiða segir okkur hryllilega sögu um hvernig ástandið var orðið í efnahag íslensks sjávarútvegs í lok vitleysistímans því að þrátt fyrir þennan mikla bata sem orðinn er, óvenjugóðar aðstæður þar sem saman fer lágt raungengi krónunnar, hátt afurðaverð og góð aflabrögð, og framlegð upp á 75 milljarða króna eða svo, þá eru sum fyrirtækin enn jafn illa sett og raun ber vitni,“ sagði Steingrímur.