Bygging miðaldakirkju í farvegi

Deiliskipulag miðaldakirkju í Skálholti verður að öllum líkindum tilbúið fyrir …
Deiliskipulag miðaldakirkju í Skálholti verður að öllum líkindum tilbúið fyrir árslok

Um þessar mundið er unnið að deiliskipulagi fyrir miðaldadómkirkju sem mögulega mun rísa í Skálholti. Hugmyndin var kynnt síðastliðið haust og á kirkjuráðsfundi fyrir helgi var samþykkt að ganga til samstarfs um endurreisn kirkjunnar.

Hugmyndin kemur frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, en ef af verður munu þau fjármagna verkefnið. Óskað var hins vegar eftir stuðningi kirkjunnar við hugmyndina. Kirkjuráð hefur samþykkt að ganga til samstarfs um byggingu kirkjunnar, en kirkjan mun ekki koma að fjármögnun hennar að öðru leyti en að kosta gerð deiliskipulagsins.

„Hugmyndin er sú að ef til byggingar kirkjunnar kemur þá muni ferðaþjónustan fjármagna hana. Allir samningar um aðkomu að rekstrinum og fleira verða svo gerðir þegar og ef þar að kemur,“ segir Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholtsumdæmi.

„Ef farið verður í byggingu þessarar kirkju þarf að myndast sátt um hvar hún muni rísa og að allt sé unnið af mikilli fagmennsku. Norðmenn hafa reist miðaldahús af þessu tagi og þeir kunna mjög vel til verka auk þess sem hér innanlands eru fræðimenn sem eru vel að sér. Sækja þarf kunnáttu til þessara aðila við byggingu hússins ef til þess kemur.“

Aukin aðsókn ferðamanna í Skálholt

Kristján segir ekki ljóst hvenær fullbúið deiliskipulag muni liggja fyrir. „Deiliskipulagsvinna tekur einhverja mánuði, og eftir að tillagan er tilbúin fer hún í kynningu mjög víða þannig að ferlið mun taka talsverðan tíma. Æskilegt er þó að skipulagið yrði tilbúið fyrir árslok.“

Að mati Kristjáns Vals er erfitt að segja til um hversu líklegt er að kirkjan rísi. „Ég er enginn spámaður, en hitt er ljóst að við fáum nú þegar marga ferðamenn í Skálholt sem við verðum að bregðast við og munum gera það næstu árin án miðaldakirkjunnar. En miðað við allar spár þarf að sinna þeim með betri hætti, þannig að það samrýmist annarri starfsemi á staðnum.“

Kristján segir að ekki hafi verið ákveðið nákvæmlega hvort kirkjan muni gegna hlutverki eiginlegrar kirkju, eða safns. „Ekki hefur verið ákveðið við hvað verður miðað, hvort þetta verður sýnishorn af því hvernig staðið var að listskreytingum og öllu þess háttar. Þá væri um að ræða eftirgerð af altari og kór og öllu sem því fylgir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert