Norlandair: Allar framkvæmdir í biðstöðu

Vopnafjörður.
Vopnafjörður. www.mats.is

„Okkur hefur verið tilkynnt að eftir að núgildandi samningur rennur út í lok árs 2013 verði áætlunarflug frá Akureyri til Þórshafnar og Vopnafjarðar ekki styrkt. Engin ákvörðun hefur verið tekin enn um hvort  flug milli Akureyrar og Grímseyjar verði styrkt áfram eða skrúfað fyrir það líka,“ segir Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair, í samtali við Vikudag.

Fyrirtækið hefur um árabil annast áætlunarflug til þessrara staða. Ríkið hefur styrkt áætlunarflug þangað og voru samningarnir um síðustu áramót framlengdir til tveggja ára. Þeir renna því út um áramótin 2013 til 2014.

„Það er alveg ljóst að ef áætlunarflug til þessara staða út frá Akureyri leggst af þá þurfum við að íhuga okkar stöðu hér. Um 90% af okkar tekjum koma vegna flugs til og frá Grænlandi og það væri því skynsamlegast fyrir okkur að flytja okkar starfsemi þangað. Við höfum fyrst og fremst verið með rekstur fyrirtækisins á Akureyri vegna áætlunarflugsins á norðausturhorn landsins og til Grímseyjar, en það þjónar engum tilgangi í sjálfu sér að vera með starfsemina hér þegar þetta flug verður lagt af,“ segir Friðrik við Vikudag. 

Hann segir að áætlunarflug til áðurnefndra staða standi ekki undir sér, forsendur þess að hægt sér að halda því úti séu styrkir frá ríkinu.

Hann kvaðst vita til þess að íbúar í sveitarfélögunum kviðu því þegar sá dagur rynni upp að  áætlunarflugi yrði hætt. Norlandair flýgur fimm sinnum í viku til Vopnafjarðar og Þórshafnar. Þá er flogið þrisvar í viku til Grímseyjar, en ekki liggur enn fyrir hvort það flug njóti styrkja eftir árið 2013.

Friðrik segir að allar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins hafi verið settar í biðstöðu. Þörf er á að stækka flugskýli félagsins á Akureyrarflugvelli, en áformum þar um hefur verið slegið á frest. „Við höfum ekki um annað að velja en að halda að okkur höndum á meðan staðan er svona,“ segir Friðrik.

Norlandair hefur átt í viðræðum við heimamenn á Sauðárkróki um möguleika á að fljúga þaðan og til Reykjavíkur og segir Friðrik að þau mál séu til skoðunar innan fyrirtækisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka