Átta manns hafa gefið kost á sér til embættis forseta Íslands og að því gefnu að meirihlutinn dragi framboð sitt ekki til baka áður en gengið er til kosninga er um metfjölda frambjóðenda að ræða. Áður hafa mest fjórir boðið sig fram, árin 1980 og 1996. Þá er aldrei að vita nema fleiri ákveði að taka slaginn en framboðum til forsetakjörs þarf að skila til innanríkisráðuneytisins fyrir miðnætti föstudaginn 25. maí.
„Það hafa oft margir verið í deiglunni, þ.á m. síðast þegar kosið var um nýjan forseta, þá voru fleiri í umræðunni en síðan var kosið um,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, og vísar til þess að í forsetakosningunum árið 1996 voru fimm frambjóðendur sem hófu kosningabaráttu en einn þeirra dró framboð sitt til baka tíu dögum fyrir kosningar. Eftir eigi að koma í ljós hvort allir frambjóðendurnir átta fái þær 1.500 undirskriftir kosningabærra manna sem þurfi til að mega bjóða sig fram.
„Það er ekki sjálfgefið að þótt átta segist ætla að gefa kost á sér þá verði átta framboð en það er greinilegt að það er áhugi hjá fólki, sem hefur ekki endilega bakgrunn í stjórnmálaflokkum, fyrir að gera sig gildandi,“ segir Gunnar Helgi og nefnir að þennan áhuga hafi t.a.m. verið hægt að greina á miklum fjölda frambjóðenda á stjórnlagaþing. „Stjórnmálaflokkarnir virðast ekki endilega bjóða fólki upp á það sem það sækist eftir og þá leitar það annarra leiða. Við sjáum þetta einnig í nýjum framboðsöflum á landsvísu og sáum þetta í sveitarstjórnarkosningunum í vissum mæli.“ Hann segist því ekki telja að þessi fjöldi frambjóðenda sé til marks um vilja fólksins í landinu til að sjá Ólaf Ragnar Grímsson hverfa úr forsetastóli. Flokkarnir séu einfaldlega ekki að bjóða fólki vettvang sem því finnist áhugaverður og því leiti það framhjá flokkunum í aðra farvegi.
Af frambjóðendunum átta eru kvenmennirnir þrír. Gunnar Helgi segir konur vera að ná betri stöðu almennt séð í stjórnmálum. „Ég held að hlutur kvenna í opinberu lífi sé hægt og bítandi að batna. Það á sérstaklega við á vettvangi sem þessum þar sem hylli kjósenda er krafist, en ekki eins í öðrum stofnunum samfélagsins eða í einkageiranum.“
Aðspurður hvort þessi fjöldi frambjóðenda kalli á forkosningar nefnir Gunnar Helgi að núverandi fyrirkomulag í forsetakosningum, einfaldur meirihluti, hafi lengi verið gagnrýnt. „Það er eitt ófullkomnasta kosningakerfi sem til er að mínu viti. Það væri með tiltölulega einföldum hætti hægt að búa til betra kosningakerfi, annað hvort með því að taka upp kerfi eins og það franska þar sem eru tvær umferðir og sú fyrri virkar eins og forkosningar en enn betri aðferð væri að láta kjósendur raða frambjóðendum á kjörstað. Þannig næðist það markmið að forseti hefði e.k. meirihluta kjósenda á bak við sig og niðurstöður fengjust með aðeins einni umferð.“ Vigdís Finnbogadóttir hafi t.d. fengið rétt rúman þriðjung atkvæða í kosningunum 1980. 1,5 prósentustigum munaði á henni og þeim sem fékk næstflest atkvæðin. „Burtséð frá hennar ágæta tíma sem forseti er óæskilegt að kjósa forseta með einungis þriðjungi atkvæða. Þú vilt frekar að forseti sé í einhverjum skilningi með meirihlutann á bak við sig og þú getur náð því fram með þessari aðferð.“
Þetta fyrirkomulag, að raða atkvæðunum, hafi verið notað um hundrað ára skeið víða um heim, t.a.m. í forsetakosningum á Írlandi og í einmenningskjördæmum í ýmsum löndum heims, t.d. Ástralíu. „Þetta gæti kallað á aukna notkun á rafrænni tækni. Það er ekki flókið að telja í sjálfu sér ef maður er með rafrænar aðferðir. Það ætti að nást að telja hratt og vel, jafnvel þótt frambjóðendurnir séu átta og kjörseðlarnir skannaðir inn frekar en að fólk kjósi rafrænt. Það fylgir ákveðin áhætta því að láta fólk velja rafrænt. Öryggismálin gætu verið ótrygg svo hægt væri að hakka sig inn í kerfið og breyta eða skemma. Þá gæti jafnvel eitthvað bilað. En ef kjörseðlarnir eru skannaðir er hægt að koma því á tölvutækt form sem væri hægt að telja tiltölulega hratt.“
Gunnar Helgi vill ekki spá fyrir um útkomu kosninganna þann 30. júní nk. þar sem töluverður tími sé í að fólk þurfi að vera búið að skila inn framboði og þannig geti í sjálfu sér allt gerst. „Kosningabaráttan er ekki hafin þannig að það er mjög erfitt að spá fyrir um hvað gerist en þessi síðasta könnun frá Félagsvísindastofnun HÍ, sem aðferðafræðilega séð er tiltölulega traust könnu, gefur ákveðna skyndimynd af því hvernig línurnar liggja núna. Ólafur á á brattann að sækja og þarf að bæta stöðu sína verulega ef hann ætlar að eiga möguleika á því að vinna.“
Kosningarnar í ár séu því ekki aðeins sögulegar vegna fjölda frambjóðendanna, heldur einnig að því leyti að í fyrsta sinn eigi mótframbjóðandi gegn sitjandi forseta raunhæfan möguleika á sigri. „Þetta eru að mörgu leyti áhugaverðar og merkilega kosningar.“