„Ámælisverður klaufaskapur“ Þorláksbúðarfélagsins

Þorláksbúð rís við Skálholtskirkju.
Þorláksbúð rís við Skálholtskirkju. Rax / Ragnar Axelsson

Misskilnings virðist hafa gætt um fjárreiður Þorláksbúðarfélagsins vegna styrkja sem veittir voru til félagsins á fjárlögum til byggingar Þorláksbúðar í Skálholti. Sr. Egill Hallgrímsson sóknarprestur í Skálholti segir það fyrst og fremst ámælisverðan klaufaskap að ársreikningi hafi ekki verið skilað til Ríkisendurskoðunar.

„Það er verið að klára að setja upp bókhaldið og gera það klárt í hendur Ríkisendurskoðunar,“ segir sr. Egill, sem er annar tveggja meðlima Þorláksbúðarfélagsins ásamt Árna Johnsen. Eins og Mbl.is sagði frá á föstudag hefur Ríkisendurskoðun ítrekað farið fram á að félagið skili uppgjöri og yfirliti ársreikninga vegna 9,5 milljóna króna styrkja til framkvæmdanna í Skálholti. Árni Johnsen, formaður félagsins og framkvæmdastjóri, sagði í samtali við Mbl.is á fimmtudag að fjármálahlið verkefnisins væri í höndum Skálholtsskóla og Skálholtsstaðar.

Lagt inn á bankareikning Þorláksbúðarfélagins

Kirkjuráð fer með málefni Skálholts og Skálholtsskóla og framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, Guðmundur Þór Guðmundsson, kannaðist í samtali við fréttastofu Rúv um helgina ekki við að bókhaldið væri í þeirra höndum. Í samtali við Mbl.is í dag sagði Guðmundur að stofnunin Skálholt hefði aldrei tekið bókhald Þorláksbúðarfélagsins formlega að sér, þótt starfsmaður hennar fari með prókúruna, og að málið virðist á misskilningi byggt.

Prókúran var upphaflega á nafni sr. Sigurðar Sigurðarsonar heitins í Skálholti, sem var formaður Þorláksbúðarfélagsins til skamms tíma við stofnun en lést í nóvember 2010. Þegar sr. Sigurður veiktist bað hann Hólmfríði Ingólfsdóttur, framkvæmdastjóra Skálholtsskóla, að taka við prókúrunni. Hólmfríður ítrekar hins vegar að stofnunin tengist málinu ekki. „Ég er þarna prókúruhafi í minni eigin persónu, þetta kemur Skálholtsstað ekkert við.“ Aðspurð segir Hólmfríður að fjárframlög ríkisins hafi verið lögð inn á bankareikning á kennitölu Þorláksbúðarfélagsins og þótt hún sé prókúruhafi sé bókhaldið alfarið hjá stjórn félagsins.

Á ábyrgð stjórnar að setja upp bókhald

Þetta staðfestir sr. Egill. „Hún hefur haldið utan um það að greiða reikninga, verið með prókúruna og haldið utan um öll fylgiskjöl. Hvorugur okkar stjórnarmannanna hefur verið með það hlutverk, hún hefur algjörlega séð um það. Hins vegar er það náttúrlega á ábyrgð stjórnar félagsins að láta setja upp bókhald og senda reikning til Ríkisendurskoðunar og það er bara ámælisverður klaufaskapur að ekki sé búið að klára það, að reikningurinn skuli ekki vera kominn á réttum tíma.“

Sr. Egill segir að bókhald Þorláksbúðarfélagsins sé í raun sáraeinfalt, þar sé fyrst og fremst um að ræða greiðslur til tveggja verktaka vegna hleðslu og byggingar Þorláksbúðar. „Við fáum fagaðila til að klára þetta fyrir okkur og setja reikninginn formlega upp eftir reglum. Svo verður þessi reikningur bara öllum sýnilegur.“

Þorláksbúðarfélagið hefur verið á fjárlögum hjá ríkinu frá árinu 2008 og alls fengið úthlutaðar 9,5 milljónir eyrnamerktar verkefnum á sviði Fornleifaverndar ríkisins. Að auki hefur félagið fengið 4,5 milljóna króna styrk frá þjóðkirkjunni til byggingar Þorláksbúðar. Lagt var upp með að framkvæmdin myndi kosta um 38 milljónir króna í heild og sagði Árni Johnsen í samtali við Mbl.is á fimmtudag að sú kostnaðaráætlun myndi að mestu halda. Einhvern pening vantaði þó upp á núna til að klára verkið.

Árni Johnsen er formaður Þorláksbúðarfélagsins og framkvæmdastjóri.
Árni Johnsen er formaður Þorláksbúðarfélagsins og framkvæmdastjóri. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Þorláksbúð eins og hún kemur til með að líta út …
Þorláksbúð eins og hún kemur til með að líta út fullgerð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert