Áform um byggingu Eldheima, safns sem ætlað verður að mynda umgjörð um sýningar tengdar Heimaeyjargosinu og Surtseyjargosinu, voru kynnt á Hótel Vestmannaeyjum í dag. Fyrirhugað er að grafa upp og byggja yfir rústir af Gerðisbraut 10 sem fór undir ösku og hraun árið 1973 og verður húsið þungamiðjan.
Til stendur að bjóða út framkvæmdir í vor og vonast til að verklegar framkvæmdir hefjist í sumar. Sýningargestum verður gefinn kostur á að upplifa gosið og sögu þess með því að ganga um húsið.
Byggingin í heild sinni verður 1.161 fermetri á tveimur hæðum, en á neðri hæð verður safn tengt Heimaeyjargosinu og efri hæðin tileinkuð Surtsey og stöðu hennar á heimsminjaskrá UNESCO.
Á blaðamannafundinum var undirrituð viljayfirlýsing milli Vestmannaeyjabæjar og Umhverfisstofnunar þess eðlis að Umhverfisstofnun leigi efri hæðina í hinu nýja húsi undir Surtseyjarsýningu þá sem sett hefur verið upp sem liður í skráningu Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO.
Til þess að auka og efla þessi tækifæri skrifuðu eigendur Hótels Vestmannaeyja einnig undir viljayfirlýsingu gagnvart Vestmannaeyjabæ þar sem Hótel Vestmannaeyjar lýsir yfir fullum vilja til að þróa hið nýja hótel sitt og veitingastað í átt að þeim áherslum sem jafnframt koma til með að birtast í tengslum við Eldheima.
Í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ segir, að ekki þurfi að efast um að Eldheimar verði gríðarlegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn um leið og þeim er ætlað að styðja við hið fjölbreytta mannlíf og menningu Vestmannaeyja.