Stundum er beitt klækjum við sölu á notuðum bílum til að hækka verðið, reynt að fegra gripinn í augum kaupandans. Miklu skiptir hve mikið bílnum hefur verið ekið.
Fram kemur í FÍB-blaðinu, riti Félags íslenskra bifreiðaeigenda, að auðvelt sé að breyta kílómetratölunni á stafrænum hraðamælum í nýjum bílum. Slíka þjónustu sé hægt að kaupa á meginlandi Evrópu fyrir sem svarar nokkur þúsund krónum. Neytendur eru varnarlausir gagnvart slíkum svikum en í sumum ríkjum er ekki einu sinni ólöglegt að breyta tölunni.
Dagný Jónsdóttir, forstjóra Umferðarstofu, segir í Morgunblaðinu í dag, að engar kvartanir hafa borist stofnuninni vegna kílómetrasvika. Ástæðan væri vafalaust að um langt skeið hefði kílómetrastaðan ávallt verið skráð við skoðun og nú bærust þær upplýsingar jafnóðum í miðlægan gagnabanka. Ef kílómetratalan hefði lækkað frá síðustu skoðun kæmi villumelding og málið væri kannað.
„Það er því erfitt að svindla á þessu hér en þetta er mikið rætt hjá samstarfsaðilum okkar í öðrum Evrópulöndum,“ segir Dagný.