Evrópustofa – upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi var opnuð í Norrænu upplýsingaskrifstofunni á Akureyri í dag.
Í fréttatilkynningu kemur fram að þar muni gestir hafa aðgang að upplýsingaefni, bæði almennu kynningarefni sem og fræðilegum bókakosti um ESB, ásamt því sem fólki stendur til boða að setjast niður við tölvu og sækja sér upplýsingar um ESB og starfsemi þess á vefnum.
Við opnunina ávarpaði Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, gesti: „Það hefur verið vilji okkar frá upphafi að opna upplýsingamiðstöð hér á Akureyri enda málefni sem varðar alla Íslendinga óháð búsetu,“ sagði Timo Summa, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Stór hluti af Evrópusambandinu er að skapa og efla tengslanet; tengslanet í viðskiptum, menntakerfinu, menningargeira, rannsóknarsamstarfi og svo mætti lengi telja. Tengslanet byggist á upplýsingum og því er mikilvægt að sem flestir hafi gott aðgengi að þeim. Þörfin fyrir upplýsingar fer sívaxandi, eins og við höfum fundið á fundaröð okkar um landið, og því munum við halda slíkum upplýsingafundum áfram á næstunni,“ segir í tilkynningu.
Í tilefni af Evrópudeginum 9. maí stendur Evrópustofa – upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi – fyrir Evrópuviku dagana 7.–13. maí.