Ríkisstjórnin fundar á Austurlandi

Ríkisstjórnin mun funda á Gistihúsinu á Egilsstöðum í fyrramálið.
Ríkisstjórnin mun funda á Gistihúsinu á Egilsstöðum í fyrramálið. mbl.is/Ómar

Byggðamál og málefni tengd Austurlandi verða rædd á reglubundnum fundi ríkisstjórnarinnar sem verður haldinn á Egilsstöðum á morgun. Að fundi loknum munu ráðherrarnir hitta sveitarstjórnarfólk á Austurlandi á sérstökum fundi.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að þetta sé fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar á Austurlandi, en áður hafi hún haldið fundi utan höfuðborgarinnar, á Ísafirði, Akureyri og í Reykjanesbæ.

Þá segir að stofnfundur sameinaðra stoðstofnana á Austurlandi (AST) verði haldinn kl. 13 á Reyðarfirði. AST vinna að þróun og eflingu atvinnulífs og samfélags á Austurlandi. Ráðherrar sitja fundinn og mun Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpa fundargesti jafnframt því sem lögð verður fram tillaga að samþykktum AST og fleira.

Klukkan 15 verður haldið málþing um sameiningu stoðstofnana, sóknaráætlanir landshluta og fleira. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun ávarpa málþingið. Á sama tíma er gert ráð fyrir að aðrir ráðherrar heimsæki fjölmenna vinnustaði á Austurlandi.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sækja loks opinn fund um sjávarútvegsmál í Egilsbúð í Neskaupstað annað kvöld. Gert er ráð fyrir að þingmenn kjördæmisins sæki einnig fundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert