Andlát: Haukur Angantýsson

Haukur Angantýsson.
Haukur Angantýsson.

Hauk­ur Ang­an­týs­son, alþjóðleg­ur meist­ari í skák, andaðist á lungna­deild Land­spít­al­ans í Foss­vogi 4. maí síðastliðinn 63 ára að aldri.

Hauk­ur fædd­ist á Flat­eyri við Önund­ar­fjörð 2. des­em­ber 1948. For­eldr­ar hans voru Ang­an­týr Guðmunds­son skip­stjóri, f. 1. júlí 1916, d. 21. maí 1964, og Arína Þór­laug Íbsens­dótt­ir rit­ari, f. 11. sept­em­ber 1923, d. 14. októ­ber 1994.

Að loknu stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1968 fór Hauk­ur til Þýska­lands og lauk námi í efna­fræði frá Georg Aug­ust Uni­versität í Gött­ingen 1973. Síðan tók hann skip­stjórn­ar­próf frá Stýri­manna­skól­an­um í Reykja­vík 1975.

Hauk­ur vann ýmis störf um æv­ina, m.a. stundaði hann rann­sókn­ar­störf á sviði efna­fræði, kennslu, sjó­mennsku, bæði inn­an­lands og er­lend­is, og við neta­gerð.

Skák­in átti lengi hug Hauks og hann náði góðum ár­angri á þeim vett­vangi. Hann varð efst­ur ásamt þrem­ur öðrum skák­mönn­um á Íslands­mót­inu 1975, en tók ekki þátt í auka­keppni. Árið eft­ir varð hann skák­meist­ari Íslands og á Íslands­mót­inu 1978 varð hann efst­ur ásamt Helga Ólafs­syni en tapaði úr­slita­ein­víg­inu. Hann varð skák­meist­ari Reykja­vík­ur 1978 og náði góðum ár­angri á Rilt­on Cup í Stokk­hólmi 1978/​79. Árið 1979 fagnaði hann glæsi­leg­asta sigri sín­um, á World Open í Phila­delp­hiu. Hann varð efst­ur með 8 vinn­inga af 10, ásamt sex stór­meist­ur­um – Miles, Brow­ne, Gheorg­hiu, Bisguier, Zuckerm­an og Fedorowicz. Hauk­ur var efst­ur á stig­um og var úr­sk­urðaður sig­ur­veg­ari á þessu forn­fræga og merki­lega móti. Hann var út­nefnd­ur alþjóðleg­ur meist­ari 1981.

Hauk­ur, sem varð skák­meist­ari TR 1993, tefldi með Skák­fé­lagi Vinj­ar síðustu árin og leiddi sveit fé­lags­ins á Íslands­móti skák­fé­laga. Jafn­framt tók hann þátt í fjöl­mörg­um skák­mót­um á veg­um Vinj­ar.

Systkini Hauks eru Íbsen, Bára, Auður, Ólaf­ur Óskar og Guðrún. Upp­eld­is­syst­ir­in Soffía Jóna Vatns­dal Jóns­dótt­ir er lát­in.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert