Bannað að beita fatlað fólk nauðung

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi frumvarpi um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Með frumvarpinu eru lögð til skýr lagaákvæði um að óheimilt sé að beita fatlað fólk nauðung nema að undanþága hafi verið veitt eða um sé að ræða neyðartilvik. Bannið nær einnig til fjarvöktunar á heimilum fatlaðs fólks. 

Frumvarpið er lagt fram í samræmi við ákvæði til bráðabirgða með lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem samþykkt voru á síðasta ári og var það undirbúið af nefnd sem velferðarráðherra skipaði í september 2011 en í henni áttu sæti fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Geðhjálp, Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að fatlað fólk hafi í gegnum tíðina verið beitt ýmiss konar þvingunum og nauðung. Bent er á að þetta hafi meðal annars komið fram í skýrslu nefndar sem fjallaði um starfsemi Heyrnleysingjaskólans 1947–1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965–1984 og skólaheimilisins Bjargs 1965–1967. Í greinargerðinni segir einnig að umræða síðustu ára um mannréttindi og réttindi fatlaðs fólks hafi dregið beitingu nauðungar fram í dagsljósið og að krafan um samræmdar og skýrar reglur um beitingu nauðungar hafi orðið háværari. 

Annars vegar hefur verið bent á hve afdrifaríkt það getur reynst ef starfsfólk í þjónustu við fatlað fólk virðir ekki eðlileg mörk í samskiptum og hins vegar að skortur á skýrum viðmiðum og óvissa um hvar mörkin liggi geti haft slæm áhrif á þjónustu við fatlað fólk og leitt til þess að starfsfólk beiti sér ekki sem skyldi þar sem ástæða og tilefni er til inngrips.

Helstu nýmæli í frumvarpinu

  • Kveðið er skýrt á um að beiting nauðungar gagnvart fötluðu fólki sé bönnuð nema veitt hafi verið undanþága samkvæmt lögunum eða um sé að ræða neyðartilvik. Bannið nær einnig til fjarvöktunar sem fer fram á heimilum fólks.
  • Heimilt verður að veita undanþágu frá banni við beitingu nauðungar og fjarvöktun í sérstökum einstaklingsbundnum tilfellum, enda sé tilgangur hennar að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni, eða að uppfylla grunnþarfir viðkomandi einstaklings.
  • Skipuð verður sérstök nefnd til að fjalla um beiðnir um undanþágur og taka afstöðu til þeirra.
  • Feli beiðni í sér ráðagerð um viðvarandi eða varanlega skerðingu á ferðafrelsi einstaklings skal henni vísað til dómstóla.
  • Í neyðartilvikum verður heimilt að beita nauðung til að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum.
  • Skipað verður sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar. Það skal vera til ráðgjafar og leiðbeiningar fyrir þjónustuveitendur, veita umsagnir um beiðnir um undanþágur frá banni við beitingu nauðungar og fjarvöktun og taka við tilkynningum um beitingu nauðungar og fjarvöktun.
  • Loks er kveðið á um skráningu allra atvika sem fela í sér nauðung eða fjarvöktun, hvort sem fengið hefur verið leyfi fyrir henni eða ekki.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka